Erlent

Osama búinn að fá vinnu á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Osama Abdul Mohsen starfaði sem knattspyrnuþjálfari í heimalandi sínu.
Osama Abdul Mohsen starfaði sem knattspyrnuþjálfari í heimalandi sínu. Vísir/AFP
Sýrlendingnum Osama Abdul Mohsen sem komst í heimsfréttirnar þegar ungverskur myndatökumaður brá fyrir hann fæti þar sem hann hljóp með son sinn í fanginu frá ungverskum lögreglumönnum, hefur verið boðið starf og íbúð á Spáni.

Myndskeið frá atburðinum vöktu heimsathygli og var tökumaðurinn, Patra Lazslo, rekinn frá sjónvarpsstöðinni N1TV daginn eftir en hún sem er með sterk tengsl við hægriflokkinn Jobbik.

Osama hélt á syni sínum Zaid þegar Laszlo sparkaði til hans og voru í kjölfarið birtar fleiri myndir af Lazslo þar sem hún sparkaði til flóttamanna.

Íbúð og starf hjá Cenafe

Spænskir fjölmiðlar hafa nú greint frá því að Osama hafi verið boðin íbúð og starf hjá fótboltaskólanum Cenafe í úthverfi Madrídar. Forsvarsmenn skólans höfðu samband við hann eftir að þýskir miðlar sögðu frá því að hann hafi starfað sem fótboltaþjálfari í heimalandinu.

Osama og tvö börn hans lentu í Madríd í gærkvöldi. „Við höfum boðið fram aðstoð okkar og hann hefur áhuga á skólanum okkar,“ segir Luis Miguel Pedraza frá fótboltaskólanum í samtali við Al-Jazeera.

Eiginkonan og börn enn í Tyrklandi

Vonast er til að eiginkona Osama og hin tvö börn þeirra muni brátt koma til Spánar en þau eru nú stödd í Tyrklandi.

„Um leið og hann lærir spænsku munum við bjóða honum starf,“ segir Miguel Ángel Galán, forseti Cenafe, í samtali við The Local.

Osama Abdul Mohsen og sonur hans.Vísir/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×