Innlent

Segir nær ógerlegt að halda dýpkun í Landeyjahöfn áfram

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Jóhann segir aðstæður hafa verið óásættanlegar.
Jóhann segir aðstæður hafa verið óásættanlegar. vísir/óskar friðriksson
Björgun ehf, sem sinnt hefur dýpkun í Landeyjahöfn, skilaði ekki inn tilboði þegar Vegagerðin auglýsti útboð vegna dýpkunarinnar í júlí, en það var belgíst stórfyrirtæki sem átti lægsta tilboðið að þessu sinni. Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri hjá Björgun, segist ekki hafa séð fram á að geta klárað verkið. Nær ógerlegt sé að vinna í allt að tveggja metra ölduhæð og efast um að önnur skip eigi eftir að ráða við verkið.

Aðstæður óásættanlegar

„Við teljum að ölduhæðin sé of há og okkar skip einfaldlega ráða ekki við hana. Skipin eru núna í ágætis standi en í vor þegar við byrjuðum dýpkunina þá brotnuðu sogrörin á öllum skipunum vegna ölduhæðar. Þannig að verkefnið er mjög erfitt og í tveggja metra öldu þá teljum við að ekki sé hægt að dæla,“ segir hann. Þá hafi aðstæður ekki verið skipverjum ásættanlegar.

Dæluskipið Perla.vísir/óskar friðriksson
Eitt erfiðasta svæði í heimi

„Það teljum við alls ekki, sér í lagi þegar ölduhæð er tveir til tveir og hálfur metri, nær ógerlegt. En, þetta er eins og tilgreint er í útboðsgögnunum, eitt erfiðasta svæði í heiminum að dæla á og teljum ekki að önnur skip geti dælt í þessari ölduhæð,“ segir Jóhann og bætir við að ekki sé hægt að líta á Landeyjahöfn sem heilsárshöfn.



Vegagerðin auglýsti útboð í júlí og opnaði tilboðin 11. ágúst síðastliðinn. Þrjú tilboð bárust og það lægsta hljóðaði upp á tæpar 588 milljónir króna frá belgíska fyrirtækinu Jan de Nul. Áætlað er að dæla þurfi allt að 750 þúsund rúmmetrum af sandi á næstu þremur árum.

Landeyjahöfn hefur sætt töluverðri gagnrýni, því erfitt hefur reynst að halda henni opinni. Á ársgrundvelli hefur lokunin náð fjörutíu prósentum og tæpum níutíu prósentum yfir vetrarmánuðina. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×