Innlent

Steineggin í Gleðivík orðin aðdráttarafl á Djúpavogi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óvenjulegt útilistaverk, sem kallast Eggin í Gleðivík, er að verða eitt helsta aðdráttarafl og einkennistákn Djúpavogs. Úr fjarlægð gætu ókunnugir kannski haldið að þetta væri leyfar af einskonar löndunarbúnaði við höfnina en þegar betur er að gáð sést að þetta eru egg, raunar steinegg, 34 talsins.

Eggin eru utan alfaraleiðar, í útjaðri þorpsins, en engu að síður er orðspor þeirra farið að breiðast út því erlendir ferðamenn leita þau uppi til að skoða og ljósmynda. Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarfulltrúi Djúpavogs, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að þau séu orðin eitt helsta aðdráttarafl Djúpavogs.

Eggin eru 34 talsins, jafnmörg varpfuglum í hreppnum.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Listaverkið er eftir Sigurð Guðmundsson og var sett upp fyrir sex árum. Eggin segir Erla Dóra að séu jafnmörg varpfuglum í hreppnum. Einn fugl, lómurinn, fær þó heiðurinn að eiga stærsta eggið, með þeim rökum að hann sé einkennisfugl svæðisins.

Eggin eru úr kínversku graníti en listamaðurinn, Sigurður, býr í Kína hluta úr ári ásamt hollenskri konu sinni, Ineke. Að sögn Erlu Dóru eiga þau jafnframt hús á Djúpavogi sem kallast Himnaríki.

Eins og nafn listaverksins gefur til kynna heitir víkin Gleðivík og er norðan við aðalbyggðina á Djúpavogi. Þau standa ofan á stöplum sem upphaflega voru undirstöður fyrir löndunarleiðslu fyrir bræðsluna. Og svo býðst ferðamönnum að kaupa afsteypur, lítil steinegg í gjafaöskjum.

Listamannshjónin Sigurður og Ineke hafa raunar einnig lífgað upp á bræðsluna gömlu með listahátíð undanfarin tvö sumur sem kallast Rúllandi snjóbolti.

„Þannig er þetta þannig séð ekki í útjaðrinum lengur heldur einskonar listamiðja,“ segir Erla Dóra Vogler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×