Innlent

Leikvangur sem yrði í anda víkinga

Snærós Sindradóttir skrifar
Það myndaðist mikil stemning í Valsheimilinu í gær þar sem nemendur sátu og unnu að hugmyndum sínum.
Það myndaðist mikil stemning í Valsheimilinu í gær þar sem nemendur sátu og unnu að hugmyndum sínum.
Nemendur á fyrsta ári við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík kynna í dag hugmyndir sínar um nýjan þjóðarleikvang. Þjóðarleikvangur hefur verið mikið í umræðunni eftir jafntefli Íslands og Kasakstans á Laugardalsvelli á sunnudag.

Eydís Sunna Ægisdóttir, nemandi í byggingatæknifræði, er í hóp sem vill byggja leikvanginn í Laugarnesi og hafa hann í anda víkinga.

„Okkar verkefni mun heita Valhöll. Við vildum hafa íslenskt þema. Við ætlum til dæmis að hafa svæði með stuðlabergi.“

Leikvangur Eydísar og félaga er hugsaður sem fjölnota leikvangur. Þau sjá fyrir sér að hann standist ólympíska staðla og sé yfirbyggður með möguleika á að opna hann.

„Ef við myndum vinna Eurovision vorum við með það í huga að það væri hægt að hafa keppnina þarna. Þetta yrði sem sagt ekki bara undir fótbolta,“ segir Eydís. Þá sér hópurinn fyrir sér hótelgistingu á leikvanginum.

Allir starfshóparnir munu kynna afrakstur sinn í hádeginu í Háskóla Reykjavíkur í dag. Þá mun dómnefnd meta verkefnin og afhenda viðurkenningar fyrir best úthugsuðu útfærsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×