Viðskipti innlent

„Sannfærður um að þessar ásakanir muni ekki leiða til sakfellingar“

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/BÞS
Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg, segist sannfærður um að ákæran gegn honum í Frakklandi muni ekki leiða til sakfellingar.

Hann og Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans, eru á meðal níu einstaklinga sem hafa verið ákærðir af rannsóknardómara í Frakklandi í tengslum við rannsókn á lánum sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun.

Gunnar segist ekki hafa séð ákæruna en skilst að hún sé væntanleg eftir nokkra daga þegar búið er að þýða hana yfir á ensku. „Ég hef því ekki séð því lýst nákvæmlega á hverju ákæran byggir. Þó skilst mér að ákæran snúist um að varan sem bankinn bauð, sem var lán ásamt eiganstýringu, hafi verið ólögmæt og einhverskonar vörusvik ef ég skil þetta rétt.“

Telja að þeim hafi verið lofað áhættulausum viðskiptum

Málið snýst um veðlán sem bankinn seldi frönskum viðskiptavinum fyrir hrun þar sem reiðufé fékkst fyrir fjórðung lánsins en restin var sett í eignastýringu hjá bankanum. Þegar gengið var að veðunum eftir hrun voru viðskiptavinirnir ekki sáttir og hefur verið talað um að þeim hafi verið lofað áhættulausum viðskiptum af Landsbankanum sem er bannað samkvæmt frönskum lögum.

Gunnar segir af og frá að Landsbankinn hafi lofað því að engin áhætta fælist í viðskiptunum. „Ég sé ekki ennþá hvernig þeir geta komist að því. Því var aldrei lofað að ávöxtun af eignastýringunni mundi nægja til endurgreiðslu lánsins. Það segir sig sjálft. Þetta var í rauninni nákvæmlega sama vara og við buðum í samkeppni við marga aðra banka á þessum tíma og þar með talið nokkra franska banka. Það datt aldrei neinum í hug að þessi ákveðna vara væri eitthvað sem menn geta flokkað undir svik.“

Gerði aldrei ráð fyrir að málið myndi ná lengra

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í fyrra sagði Gunnar að hann teldi afar litlar líkur á að rannsóknin myndi leiða til ákæru. Hann segir því þessa niðurstöðu rannsóknardómarans koma honum á óvart. „Og ég gerði aldrei ráð fyrir að þetta myndi fara lengra. Ennþá er ég auðvitað sannfærður um að þessar ásakanir muni ekki leiða til sakfellingar því ég hef ekki séð neina staðfestingu á því að eitthvað hafi verið gert sem átti ekki að gera.“

Gunnar segir rannsóknardómarann hafa unnið að þessari rannsókn í nokkur ár og að í Frakklandi hafi rannsakandinn sjálfur heimild til að ganga alla leið og gefa út ákæru sjálfur. „Hérna á Íslandi er það þannig að þeir sem gefa út ákæruna þeir þurfa að telja yfirgnæfandi líkur á því að ákæran leiði til sakfellingar en það virðist ekki vera staðan þarna, heldur nægir þeim að telja einhverjar minnstu líkur á að sakfelling geti átt sér stað.“

Málið tekið fyrir á næsta ári

Hann segist hafa heyrt af því að málið verði tekið fyrir í Frakklandi á næsta ári. „Þá mun ég að sjálfsögðu koma fyrir dóminn og skýra mitt mál,“ segir Gunnar sem hefur ráðið franska lögmenn sem eru að undirbúa vörn hans.


Tengdar fréttir

Sakamál gegn Landsbankanum í Lúxemborg

Breskir lífeyrisþegar reyna að höfða sakamál á Spáni gegn þrotabúi Landsbankans í Lúxemborg og stjórnendum hans vegna fjársvika í aðdraganda hrunsins. Hópur fórnarlamba kallar sig „Landsbanki Victims Action Group.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×