Erlent

Afganar ráðast gegn Talibönum í Kunduz

Samúel Karl Ólason skrifar
Talibanar hertóku Kunduz í gær.
Talibanar hertóku Kunduz í gær. Vísir/EPA
Afganskir hermenn hafa nú gert gagnárás við borgina Kunduz, eftir að Talibanar hertóku borgina í gær í leiftursókn og frelsuðu þeir hundruð manna úr fangelsum í borginni. Þetta var stærsti sigur Talibana gegn afganska hernum frá því þeir voru hraktir frá völdum árið 2001.

Hermennirnir eru studdir af loftárásum Bandaríkjanna.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni ætlar innanríkisráðuneyti Afganistan að rannsaka hvernig Talibönum tókst að hertaka heila borg, í fyrsta sinn í fjórtán ár. Meðal þeirra sem voru frelsaðir úr fangelsum Kunduz voru háttsettir leiðtogar Talibana, sem höfðu verið handsamaðir.

Íbúar, sem flýja nú Kunduz, segja lík á víð og dreif um götur borgarinnar. Árás Talibana vekur upp spurningar um getu afganska hersins til að halda aftur af Talibönum, en níu mánuðir eru frá því að NATO hætti hernaði í landinu. Kunduz var síðasta borgin sem Talibanar stjórnuðu árið 2001.

Talibanar hafa að mestu haldið til á svæðinu við landamæri Afganistan og Pakistan, en hin árlega vorsókn þeirra var sérstaklega umfangsmikil nú í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×