Handbolti

Einar: Þessi dómur var út í hött

Guðmundur Tómas Sigfússon skrifar
Einar klappaði eflaust ekki fyrir dómaraparinu í kvöld.
Einar klappaði eflaust ekki fyrir dómaraparinu í kvöld. Vísir/Stefán
„Ég er sérstaklega ósáttur af því að við vorum búnir að vinna okkur aftur inn í seinni hálfleiknum, með mark í forystu og síðan klúðrum við þessu í lokin,“ sagði Einar Hólmgeirsson, þjálfari ÍR-inga, eftir grátlegt tap úti í Eyjum í kvöld.

„Síðasta sóknin hjá okkur fer heldur illa, ég geri mistök með því að taka leikhléið aðeins of snemma, það er eitthvað sem ég verð að lifa með.“

Einar var afar ósáttur með dómarapar leiksins en dæmdur var ruðningur á Davíð í síðustu sókn ÍR í leiknum.

„Þessi dómur er auðvitað út í hött, ég ætla ekki að gagnrýna dómarann en þessi dómur er út í hött. Við erum búnir að spila í eina sekúndu á miðjum vellinum. Hann hleypur framhjá honum og hann hendir sér niður, það sjá það allir í húsinu.“

Davíð Georgsson fékk rautt spjald undir lok leiksins en Bjarni Fritzson hefði með réttu átt að fá það, fyrir að taka boltann upp og hlaupa með hann í burtu eftir að flautaður var ruðningur á Davíð.

„Þetta rauða spjald, hann heyrir ekki í flautunni, allt í lagi. Við klúðrum þessu í rauninni sjálfir, sem er mjög sorglegt þegar við vinnum okkur svona vel inn í leikinn og erum komnir yfir. Þetta tap er óverðskuldað finnst mér en ég óska þeim til hamingju með sigurinn.“

ÍR-ingar komu Eyjamönnum í opna skjöldu í byrjun þegar þeir ákváðu að spila með sjö menn í sókn.

„Ég verð að hrósa Bjarna fyrir undirbúninginn, hann sat einhverja þrjá daga við tölvuna og var að hugsa hvernig við ætluðum að gera þetta. Við æfðum þetta mjög vel og það heppnaðist í rauninni, en samt ekki því við töpum leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×