Innlent

Afkomandi huldufólks býr í skógarrjóðri við Reykjavík

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Tryggvi Gunnar er enn að innrétta hjá sér íverutjaldið. Þar þó komin kynding sem hann útbjó sjálfur.
Tryggvi Gunnar er enn að innrétta hjá sér íverutjaldið. Þar þó komin kynding sem hann útbjó sjálfur. vísir/vilhelm
„Húsin í borginni eru eins og fangabúðir,“ segir Tryggvi Gunnar Hansen sem býr í tjaldi í rjóðri einu við mörk byggðarinnar í höfuðborginni.

Tryggvi er tónlistar- og myndlistarmaður auk þess að vera þekktur torfhleðslumaður.

Undanfarna áratugi hefur hann gert víðreist og meðal annars dvalist á Norðurlöndunum, í Eystrasaltslöndunum og í Karpatafjöllum í Úkraínu. Í þessum löndum leitar Tryggvi uppi náttúruunnendur sem deila lífsskoðunum hans.

Nú er Tryggvi kominn heim og hefur frá því í maí gert sér athvarf í skógarrjóðri sem hann biður um að ekki komi fram hvar er.

„Ég stefni að því að verða sjálfbær og hef reynt að rækta grænmeti í sumar en þar sem ég er ekki mjög reynslumikill og sumarið var lélegt gekk það fremur slælega,“ segir Tryggvi og gefur gestunum að bragða á stikilsberjum sem vaxa á svæðinu.

Tryggvi segir gríðarmiklum verðmætum fargað hér. Mat og alls kyns hlutum sem hægt sé að gera við eða nýta í annað. Sjálfur hafi hann sem dæmi bjargað stráheilum reiðhjólum frá því að lenda í málmpressum Sorpu.

Tryggvi vill að fólk endurheimti raunverulegt lýðræði með litlum þorpum sem velji sína fulltrúa á stærri þing.vísir/vilhelm
„Endurnýtingardeild Sorpu ætti að nýta hlutina betur og jafnvel vera með skiptimarkað fyrir almenning líkt og tíðkast í Svíþjóð og skapar þar skemmtilega stemningu,“ segir Tryggvi. Einu þessara hjóla hefur hann breytt í rafmagnshjól sem hallar sér upp að húsbílnum sem Tryggvi flutti með sér frá Svíþjóð.

Prótótýpa Tryggva af rafmagnshjóli og bíll sem hann flutti með sér frá Svíþjóð eru meðal muna í litla þorpinu hans.vísir/vilhelm
Tryggvi telur sig vera afkomanda og merkisbera náttúrufólks sem bjó hér tugþúsundum saman fyrir „lygalandnám víkinga“ sem komið hafi með yfirgangi.

Þegar ungmenni dvöldu með Tryggva í sumar var þessi aðstaða til að vaska upp leirtau útbúin. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta var friðsamt fólk sem lifði á landi og bjó í hringlaga kotum og hellum. Benedikt Gíslason segir í bók sinni Íslendu að við höfum verið 80 til 100 þúsund manns hér fyrir. Þá tel ég að 25 prósent hafi flúið land, 25 prósent verið drepin, 25 prósent gerð að þrælum og 25 prósent flúið á fjöll. Þetta fólk var síðan kallað álfar, tröll og huldufólk. Þeir sem eru náttúrusinnaðir eins og ég eru af þessu fólki komnir. Síðan var hér óslitið þrælahald og nauðgun „bænda“, sem sagt lénsherraveldi,“ segir Tryggvi sem vill breytingar.

„Áður vorum við fjölskyldur – þorp – og það er einmitt þetta þorp sem ég vil endurvekja. Ekki þorp eignarréttar heldur þorp sem vinnur að því að allir verði sjálfbærir af náttúrunni hér og án skulda og án peninga,“ lýsir Tryggvi sem sér fyrir sér 3.300 þorp með eitt hundrað manns í hverju.

„Þessi þorp myndu senda sína fulltrúa til þinga en ekki bara þrjár eða fjórar hundrað manna klíkur, það er stjórnmálaflokkarnir sem eru í raun mafíuklúbbar,“ segir Tryggvi. Hluti vandans sé of stórar einingar.  „Ef fleiri en níutíu kjúklingar eru í sama húsi þá verða þeir vitskertir. Samskiptakerfi sem þeir hafa byggt upp í milljónir ára brotnar niður og þeir byrja að gogga hver í annan. Svipað gildir með okkur mennina."

Tryggvi bendir á að ef Íslendingar skipta með sér landinu þá komi þrjátíu hektarar í hlut hvers og eins. „Við gætum byggt allt sjálf úr náttúruefnum, án banka og peninga og pössum landið saman. Það á ekki að selja landið, ekki gefa það og ekki auka við. Stærsta ruglið er þessi vöntun, að þurfa meira og meira – sem er vaxtarhyggjan endalausa. Nú er komið að nóghyggju," segir hann.

Aðspurður segist Tryggvi lítið sækja til byggða. „En ég fer samt alltaf að ná mér í einhverja næringu,“ játar hann þó enda sé sjálfbærnin ekki komin alveg til framkvæmda.

Í sumar bjuggu nokkur ungmenni í tjöldum á svæðinu. Tjöldin standa enn á sínum stað en unga fólkið er horfið. Eini íbúinn býr sig undir veturinn.

„Ég þarf að þétta tjaldið meðfram gólfinu og sennilega loka betur að ofan svo snjói ekki inn,“ segir Tryggvi og sýnir aðkomumönnum við svo búið hugvitssamlega kyndingu með tvöföldu kerfi sem nýtir eldivið betur. Kyndinguna bjó hann til úr notuðum hlutum. „Þetta verður allt í lagi.“

Tryggvi Gunnar Hansen



Fleiri fréttir

Sjá meira


×