Lífið

Krakauer um Everest Balta: „Algjört bull“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Baltasar Kormákur á frumsýningu myndarinnar í Hollywood fyrr í mánuðinum.
Baltasar Kormákur á frumsýningu myndarinnar í Hollywood fyrr í mánuðinum. vísir/getty
Metsöluhöfundurinn Jon Krakauer, fer ófögrum orðum um nýjustu mynd Baltasars Kormáks, Everest, í viðtali sem birtist við hann á vef Los Angeles Times í dag. Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina en um liðna helgi var hún tekin til sýninga í tilteknum kvikmyndahúsum þar í landi.

Krakauer var einn af þeim sem náðu toppi Everest þann 10. maí 1996 þegar átta manns týndu lífi á fjallinu en mynd Baltasars fjallar einmitt um þá atburði.

„Myndin er algjört bull,“ segir Krakauer í viðtalinu við LA Times. Hann segir engan hafa haft samband við sig vegna myndarinnar, ekki einu sinni leikarinn Michael Kelly sem leikur Krakauer í Everest.

Á meðal þeirra sem létust á fjallinu var Rob Hall, leiðsögumaður, en Krakauer var í hópnum hans og hugðist skrifa grein í tímaritið Outside um ferðina. Hann gaf síðar út metsölubókina Into Thin Air sem fjallar um leiðangurinn og hefur selst í milljónum eintaka um allan heim.

Jon Krakauer.vísir/getty
Segir engan hafa komið í tjaldið og beðið hann um aðstoð

Metsöluhöfundurinn segir Baltasar hafa gert lítið úr honum í myndinni og er sérstaklega ósáttur við eitt atriði hennar.

Í atriðinu fer rússneski leiðsögumaðurinn Anatoli Boukreev inn í tjald til Krakauer og biður hann um að hjálpa sér. Krakauer segist ekki geta það þar sem hann sé blindaður af snjó.

„Ég átti aldrei þetta samtal við Anatoli. Hann fór inn í nokkur tjöld en sjerparnir fóru ekki einu sinni út. Ég er ekki að segja að ég hefði getað hjálpað eða að ég hefði gert það. Staðreyndin er sú að enginn kom og bað mig um aðstoð,“ segir Krakauer.

Vildu sýna hversu bjargarlaust fólkið var á fjallinu

Í yfirlýsingu sem LA Times barst frá Baltasar vegna orða Krakauer um atriðið í tjaldinu segir að ætlunin hafi verið að sýna hversu hjálparvana ferðalangarnir voru og hvers vegna ekki var hægt að fara út og bjarga þeim sem urðu eftir.

„Þau voru ekki illgjörn heldur bjargarlaus,“ er haft eftir Baltasar. Þá segir hann jafnframt að hann hafi haft aðgang að fjölmörgum bókum um atburðina á fjallinu 1996.

Þá hafði hann einnig aðgang að öllum talstöðvasamskiptum sem fóru í gegnum tjald fyrirtækisins Adventure Consultants í grunnbúðum Everest en Krakauer var einmitt viðskiptavinur þeirra.

Baltasar segir jafnframt að hann og aðrir sem komu að gerð myndarinnar hafi notið ráðgjafar fjögurra einstaklinga sem voru á fjallinu og aðstoðuðu við björgunaraðgerðir.

„Handritshöfundarnir og ég reyndum að horfa á hlutina á sanngjarnan hátt án þess að taka stöðu með einum né neinum.“

Viðtalið við Krakauer má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Ráðherrar lofa Everest

Nokkrir af ráðherrum þjóðarinnar voru staddir á frumsýningu Everest, stórmyndar Baltasar Kormáks. Lífið leitaði til ráðherranna og spurði þá hvað þeim fannst um myndina, sem hefur fengið jákvæð viðbrögð víða um heim.

Vilborg um Everest: Fangaði raunveruleikann

Vilborg Arna Gissurardóttir, reyndi við toppinn á Everest í fyrra og aðstoðaði við hjálparstörf eftir að mannskæðasta snjóflóð í sögu Evrest skall á 500 metrum fyrir ofan Grunnbúðirnar, þar sem hún dvaldi. Hún segir frá upplifun sinni af myndinni Evrest, eftir Baltasar Kormák.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.