Viðskipti innlent

Dohop leggur Yandex til flugleitartækni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Davíð Gunnarsson er framkvæmdastjóri Dohop.
Davíð Gunnarsson er framkvæmdastjóri Dohop. Vísir/Stefán Karlsson
Dohop hefur tekið upp samstarf við rússneska leitarrisann Yandex með þeim hætti að flugverð frá Dohop birtist nú á flugleitarvef Yandex. Fjöldi flugleita á vef Yandex er um þrisvar sinnum meiri en á núverandi vef Dohop og því um töluverða aukningu að ræða.

Yandex er eitt stærsta internetfyrirtæki Evrópu. Yandex.ru er jafnframt vinsælasta vefsíða Rússlands og ein af þeim 20 mest sóttu í heiminum. Þar eru framkvæmdar um 150 milljón leitir daglega en Yandex er með rúmlega 60% markaðhlutdeild á rússneska leitarmarkaðnum á móti Google. Þrátt fyrir að félagið sé rússneskt er það skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum. Hjá Yandex starfa um 5.500 manns og markaðsvirði félagsins er 476 milljarðar, segir í tilkynningu.

„Samstarfið við Yandex er stórt skref fyrir Dohop ásamt því að vera staðfesting á allri þeirri vinnu sem við höfum lagt í tæknina og gefur okkur nú aðgang að mun stærri mörkuðum. Þetta gefur Yandex einnig tækifæri til þess að sækja á fleiri markaði og það er mikil viðurkenning að Yandex hafi ákveðið að nota okkar lausn og við erum spennt fyrir framhaldinu,” segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Dohop.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×