Innlent

„Vinnum markvisst að því að auka hlut kvenna á þingi en látum okkur engu skipta afar lágt hlutfall kvenna í Hæstarétti“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Af þeim tíu dómurum sem skipa hæstarétt er ein kona.
Af þeim tíu dómurum sem skipa hæstarétt er ein kona. Vísir/GVA
Ragnhildur Helgadóttir, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík, gerir lágt hlutfall kvenna við Hæstarétt að umtalsefni í grein sinni sem birtast mun í Tímariti HR sem kemur út í október. Greinin var birt á vef skólans í dag en tilefni skrifa Ragnhildar er 100 ára kosningaafmæli kvenna sem var í sumar.

Mikið hefur verið fjallað um ráðningu hæstaréttardómara eftir að frá því var greint í gær að dómnefnd sem skipuð var til að meta hæfi umsækjenda taldi Karl Axelsson, hæstaréttarlögmann, hæfastan til að gegna embættinu. Aðrir umsækjendur voru Ingveldur Eiríksdóttir, settur hæstaréttardómari, og Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindastól Evrópu. Dómnefndin sem mat Karl hæfastan er skipuð fimm körlum.

Í grein sinni bendir Ragnhildur á að stór hluti héraðsdómara eru konur eða 20 af 43. Hins vegar er aðeins ein kona á meðal tíu hæstaréttardómara. Hún ber þetta hlutfall saman við Alþingi þar sem hlutfall kvenna hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er nú í kringum 40 prósent.

Ragnhildur segir að flestum finnist skipta máli að á þingi „sitji misjafnt fólk með misjafna reynslu; á ýmsum aldri, af báðum kynjum, með mismunandi menntun og lífsreynslu.“



Mikilvægi þess að konur sitji á Alþingi grundvallast „þó ekki alltaf á skoðun um að konur og karlar séu ólík, og því skipti fjölbreytni máli fyrir vinnubrögð og niðurstöðu í málum, heldur vilja langflestir að á þingi sitji fjölbreyttur hópur fólks sem endurspegli okkur flest eða öll,“ segir í grein Ragnhildar.

Þessi rök um „táknrænt mikilvægi blandaðs hóps og rökin um speglun“ eiga jafnframt við um dómstólana að mati Ragnhildar þrátt fyrir að hlutverk þeirra sé gerólíkt hlutverki þingsins. Það sé nefnilega mjög mikilvægt að konur geti speglað sig í dómstólum landsins enda leita þær réttar síns líkt og karlar. Það skipti því máli, rétt eins og á Alþingi, að það sjáist að konur taki ákvarðanir á æðstu stöðum líkt og karlar.

„Það er þess vegna skrýtið – þó horft sé til mismunandi hlutverka Alþingis annars vegar og dómstóla hins vegar – að við sem þjóð vinnum markvisst að því að auka hlut kvenna á þingi en látum okkur engu skipta afar lágt hlutfall kvenna í Hæstarétti.“

Grein Ragnhildar má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×