Enski boltinn

Gylfi pirraður á markaleysinu: Þarf að brjóta ísinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gylfi í baráttunni við Jack Colback í leik Swansea og Newcastle.
Gylfi í baráttunni við Jack Colback í leik Swansea og Newcastle. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson viðurkenndi að það væri farið að fara í taugarnar á honum að hann væri ekki enn kominn á blað eftir sjö leiki með Swansea í upphafi tímabilsins í viðtali við Wales Online í dag.

„Þetta er pirrandi en ég veit að það styttist í markið og ef ég legg áfram hart að mér kemur það innan skamms, hvernig sem það kemur. Ég er ennþá með það markmið að skora 10-15 mörk á þessu tímabili og ég veit að ég get það alveg.“

Gylfi var einn af betri leikmönnum Swansea á síðasta tímabili en ásamt því að skora 7 mörk lagði hann upp önnur 10 fyrir liðsfélaga sína.

„Ég hef ekki fengið jafn mörg marktækifæri á þessu tímabili og þegar ég hef fengið þau hefur mér ekki tekist að ná að klára þau. Það kom svona kafli á síðasta tímabili líka þar sem ég skoraði ekkert í 6-7 leikjum en ég verð bara að brjóta ísinn í ár.“

Swansea datt nokkuð óvænt út gegn Hull í enska deildarbikarnum í gær en örlítið hikst hefur verið á liðinu eftir góða byrjun á tímabilinu.

„Okkur tókst ekki að nýta færin þegar við vorum að stýra leiknum. Við vorum með marga frábæra leikmenn þarna sem áttu að geta unnið þennan leik sem gerir þetta mun meira svekkjandi. Þetta snýst allt um að ná í úrslit og okkur tókst ekki að komast í næstu umferð,“ sagði Gylfi.

Gylfi var hársbreidd frá því að brjóta ísinn gegn Manchester United.Vísir/Getty
Finnum ekki fyrir aukinni pressu

Swansea hefur aðeins fengið eitt stig úr síðustu tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni en næsti leikur liðsins er gegn Southampton á útivelli um helgina.

„Við höfum ekki unnið í síðustu þremur leikjum í öllum keppnum. Leikurinn gegn  Watford var ekki nægilega góður en stigið gegn Everton var fínt eftir að þeir unnu Chelsea í sömu viku. Við finnum ekki fyrir aukinni pressu fyrir leikinn gegn Southampton en við tökum vonandi þrjú stig úr leiknum.“

Gylfi sagði að það væri enn markmið liðsins að bæta árangur síðasta tímabils þegar Swansea endaði í 8. sæti með 56 stig.

„Við erum með væntingar til okkar sem leikmanna og við viljum gera betur en á síðasta tímabili. Það verður vissulega erfitt að bæta góðan árangur síðasta tímabils en það er möguleiki á því. Liðið er betur mannað en á síðasta tímabili svo ég sé ekki afhverju við ættum ekki að geta betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×