Fótbolti

Lewandowski með fimm mörk á níu mínútum | Jafnaði met Atla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski fagnar í kvöld.
Robert Lewandowski fagnar í kvöld. Vísir/Getty
Pólski framherjinn Robert Lewandowski afgreiddi Wolfsburg á ótrúlegum níu mínútna kafla í leik liðanna í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Bayern München vann leikinn 5-1 eftir ótrúlegan seinni hálfleik.

Robert Lewandowski, sem kom inná sem varamaður í hálfleik, skoraði fimm mörk á aðeins níu mínútna kafla. Frammistaða hans fer heldur betur í sögubækurnar.

Lewandowski setti met með því að verða fyrsti varamaðurinn til að skora fimm mörk í sögu þýsku úrvalsdeildarinnar auk þess að vera fyrsti útlenski leikmaðurinn til að skora fimm mörk í einum leik síðan að Atli Eðvaldsson náði því árið 1983.

Bayern München lenti 1-0 undir eftir 26 mínútna leik og þannig var staðan þar til að Lewandowski tók til sinna ráða í seinni hálfleiknum.

Lewandowski kom inná í hálfleik í stöðunni 1-0 og skoraði jöfnunarmarkið sex mínútum síðar. Eftir aðeins þrjár mínútur og 22 sekúndur var hann búinn að skora tvö til viðbótar og innsigla þrennuna.

Hann var hinsvegar hvergi nærri hættur og bætti við tveimur mörkum á næstu fimm mínútum. Það þýddi að Lewandowski var búinn að skora fimm mörk á aðeins níu mínútum.

Daniel Caligiuri kom Wolfsburg í 1-0 á 26. mínútu og það leit út fyrir það í hálfleik að þetta yrði mikið basl fyrir Bayern í kvöld. Annað kom þó á daginn.

Robert Lewandowski hefur nú skorað átta mörk í fyrstu fimm leikjum Bayern München í þýsku deildinni á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×