Bikarkeppnin hjá danska Íslendingaliðinu Odense BK var stutt gaman þetta tímabilið en OB-liðið datt út í kvöld í 3. umferð bikarsins eftir tap á móti b-deildarliðinu Fredericia.
Fredericia vann leikinn 2-1 en hann var spilaður á heimavelli Fredericia. OB er í 6. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar en Fredericia er eins og er í 4. sæti í dönsku b-deildinni.
Tveir íslenskir landsliðsmenn spila með Odense BK. Ari Freyr Skúlason lék með liðinu í leiknum í kvöld en Hallgrímur Jónasson var ekki í hóp.
Admir Catovic kom Fredericia í 1-0 á 37. mínútu en Kenneth Zohore jafnaði metin aðeins mínútu síðar. Oliver Feldballe skoraði síðan sigurmark Fredericia níu mínútum fyrir leikslok.
Fredericia spilaði vel í fyrri hálfleiknum en seinni leikurinn var algjör eign OB. Ara Frey og félögum tókst þó ekki að komast yfir og fengu þess í stað á sig mark.
OB var í stórsókn síðustu tíu mínútur leiksins en markið kom ekki og leikmenn Fredericia fögnuðu óvæntum sigri.
