Innlent

Á annan tug barna bíður þess að komast í skóla

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Alls bíða nú fjórtán börn hælisleitenda þess að komast inn í skóla. Þrjú fengu inngöngu í dag eftir að fréttir um málið birtust í fjölmiðlum.
Alls bíða nú fjórtán börn hælisleitenda þess að komast inn í skóla. Þrjú fengu inngöngu í dag eftir að fréttir um málið birtust í fjölmiðlum. vísir/vilhelm
Umboðsmaður barna lítur alvarlegum augum á vinnubrögð Útlendingastofnunar, sem hefur látið hjá líða að sækja um skólavist fyrir á annan tug barna hælisleitenda hér á landi. Fundað verður um málið í næstu viku.

„Þetta er alvarlegt mál. Þetta eru börn sem eiga rétt á skólagöngu og það er hluti af þeirra réttindum, og mikilvægur þáttur í þeirra þroska,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, í samtali við Vísi.

Hún óskaði eftir svörum frá Útlendingastofnun um hversu mörg börn hælisleitenda á grunnskólaaldri hér á landi hafi ekki fengið að ganga í skóla eða fengið viðeigandi menntun að öðru leyti. „Við fengum upplýsingar um að börnin væru alls sautján,“ segir Margrét. Þrjú þeirra fengu inni í grunnskóla í dag, eftir að frétt um málið birtist í Fréttablaðinu.  Hún segir að svar Útlendingastofnunar hafi verið á þá leið að verið væri að leita leiða hvernig ætti að vinna mál sem þessi.

Sjá einnig: Systkinin þrjú komin inni í grunnskóla

„Við fundum snemma í október og þar munum við spyrja spurninga, leita upplýsinga og reyna að koma þeim á framfæri. Umræðan um þetta er mjög mikilvæg og við fögnum henni. Mér finnst mjög líklegt að þetta verði eitt af stóru málaflokkunum í vetur, þ.e börn hælisleitenda,“ segir Margrét.

Ekki náðist í Útlendingastofnun við vinnslu þessarar fréttar og liggur því ekki fyrir hvort búið sé að sækja um skólavist fyrir börnin fjórtán. Þau svör fengust í gær að stofnunin hefði sér lítið til málsbóta, en það að útvega börnum skólavist sé verkefni sem Útlendingastofnun hafi ekki sinnt áður og að vinna varðandi það hafi tafist á meðan unnið var að því að tryggja fólki þak yfir höfuðið og sinna helstu frumþörfum þess.


Tengdar fréttir

Skólastjóri Laugalækjarskóla býður systurnar Lauru og Janie velkomnar

Útlendingastofnun hefur haft samband við Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla og beðið um skólavist fyrir systkinin, Lauru, Janie og Petrit. Björn M. Björgvinsson skólastjóri Laugalækjarskóla staðfestir þetta. "Þær eru búnar að fá skólavist, það á aðeins eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum, við þurfum örfáa daga til þess að undirbúa þær fyrir skólann,“ segir hann og segir skólann munu taka vel á móti þeim.

Börn hælisleitenda fá ekki skólavist

Þau Laura fimmtán ára, Janie þrettán ára og Petrit níu ára komu til Íslands í byrjun júní. Þau spyrja foreldra sína daglega hvenær þau fái að fara í skóla. Útlendingastofnun sótti ekki um skólavist fyrir systkinin þrátt fyrir ítrekaðar áminningar foreldra barnanna, lögfræðinga og umboðsmanns barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×