„Þetta hefur verið frá forngrískum tíma talið græðandi; að láta sleikja sár. Munnvatn bæði í hundum og fólki hefur verið skoðað og í því eru þættir sem eru bæði græðandi, sársaukadempandi og svo náttúrulega hreinsandi. En svo eru líka bakteríur,“ útskýrir Þóra. Hún segir ástæðu þess að oft er settur skermur á dýr sem koma úr aðgerð þá að dýrin geta sleikt of mikið og þá sýkja þau sárin.
En hvað með hunda sem reyna að sleikja sár og blöðrur eiganda sinna?
„Það er í þeirra eðli að sleikja sár. Munnvatnið getur haft góð áhrif en það getur líka sýkt. Það er mikil bakteríuflóra í munni þannig að minnsta kosti verður slíkt að vera í hófi.“

Þóra er gæludýraeigandi sjálf og hrifin af hundum en þrátt fyrir það þykir henni ekki geðslegt að leyfa hundinum sínum að sleikja sig í framan. „Ef við lítum á þær bakteríur sem finnast í munnholi á hundum þá eru þær ekki þær sömu og finnast hjá fólki og það er mikið sem fer ekki á milli tegunda. En það eru til bæði sníkjudýr og bakteríur sem fara á milli.“ Það er því ekki alveg hættulaust að leyfa hundinum sínum að sleikja sig í framan en þó minni hætta á alvarlegu smiti hér á landi en víða annars staðar.
„Ég held það sé faktískt meiri áhætta ef þú ert að kyssa aðra manneskju að þú fáir eitthvað smitandi heldur en frá hundinum.“
Þóra var þá spurð út í svokallaðan gæludýrapassa eða gæludýravegabréf sem hefur verið í umræðunni undanfarin ár. Fyrirkomulagið á Íslandi er þannig að þrátt fyrir að gæludýr hafi verið bólusett verður það að dvelja í fjögurra vikna sóttkví ferðist eigandi með dýrið út fyrir landsteinana.

Undirskriftarsöfnun hafin fyrir gæludýrapassa
Hún telur séð að fái gæludýraeigendur aukið frelsi til að ferðast með dýrin á milli landa þá gætu þeir verið að bera ný sníkjudýr og nýja sjúkdóma til landsins.
„Við sjáum það að þó að við séum með reglur um fjórar vikur í sóttkví og að það sé krafa um að þau séu meðhöndluð gegn ytri og innri sníkjudýrum þá er stöðugt að finnast á þeim í einangruninni sem er þá meðhöndlað sérstaklega. Þannig að það er alveg ljóst að ef þessi flutningur yrði án einangrunar myndum við fá þetta inn í landið.“
Hún segist skilja mjög vel þessa kröfu gæludýraeiganda um meira ferðafrelsi fyrir dýrið. Í vikunni hófst undirskriftarsöfnun fyrir stuðningsmenn gæludýrapassans. Þegar þetta er skrifað eru undirskriftirnar orðnar rúmlega 1300 talsins.
„Ég skil það mjög vel,“ útskýrir Þóra. „En þó held ég að stundum gleymist að hafa hag dýrsins í fyrirrúmi. Okkur langar að taka þau með og hafa þau með en er það gert á forsendum dýrsins? Er það því til gamans að fara í ferðalög og flugvél og bíla og á ókunnar slóðir. Ég held að það gleymist stundum.“