Fótbolti

Lewandowski með tíu mörk á einni viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. Vísir/Getty
Það er óhætt að halda því fram að pólski framherjinn Robert Lewandowski hafi verið funheitur í leikjum þýsku meistaranna í Bayern München á síðustu sjö dögum.

Robert Lewandowski skoraði þrennu í sigri á Dinamo Zagreb í Meistaradeildinni í gær sem þýðir að kappinn er búinn að skora tíu mörk í þremur síðustu leikjum Bayern sem allir fóru fram á undanförnum sjö dögum.

Lewandowski skoraði fimm mörk eftir að hafa komið inná sem varamaður á móti Wolfsburg á þriðjudagskvöldið í síðustu viku og hann hefur því ekki þurft nema tvo og hálfan leik til að skora þessi tíu mörk.

Lewandowski skoraði fimmuna sína á móti Wolfsburg frá 51. til 60. mínútu eða aðeins á níu mínútum. Hann jafnaði þar með met Atla Eðvaldssonar frá 1983 yfir flest mörk hjá erlendum leikmanni í einum leik í þýsku úrvalsdeildinni.

Lewandowski spilaði alls 225 mínútur í þessum þremur leikjum sem þýðir að hann var að skora á 22,5 mínútna fresti í þeim.

Lewandowski var búinn að skora þrjú mörk í fimm fyrstu leikjum Bayern München í þýsku deildinni og Meistaradeildinni fyrir þessa ótrúlegu viku. Nú er hann kominn með sautján mörk í tólf leikjum í öllum keppnum með félagsliði og landsliðið á þessu tímabili.

Lewandowski er nú sem stendur markahæsti leikmaðurinn í þýsku deildinni, í Meistaradeildinni og í undankeppni EM 2016 þar sem hann hefur skorað tíu mörk fyrir pólska landsliðið.



Vikan hjá Robert Lewandowski:

Þriðjudagur 22. september

5-1 sigur á Wolfsburg í þýsku deildinni

Skoraði 5 mörk

Laugardagur 26. september

3-0 sigur á Mainz í þýsku deildinni'

Skoraði 2 mörk

Þriðjudagur 29. september

5-0 sigur á Dinamo Zagreb í Meistaradeildinni

Skoraði 3 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×