Handbolti

Ásta Birna kölluð út til Frakklands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásta Birna Gunnarsdóttir.
Ásta Birna Gunnarsdóttir. Vísir/Valli
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðið, hefur þurft að gera breytingu á leikmannahópnum sínum sem er úti í Frakklandi að undirbúa sig fyrir leik gegn heimastúlkum á morgun.

Gróttukonan Unnur Ómarsdóttir er meidd og getur ekki spilað leikinn. Ágúst hefur því kallað á Ástu Birnu Gunnarsdóttir, leikmann Fram, en þær spila báðar í vinstra horninu.

Leikurinn við Frakka er fyrsti leikur íslensku stelpnanna í undankeppni EM 2016 en Ísland er einnig í riðli með Sviss og Þýskalandi.  Lokakeppnin fer fram í Svíþjóð í desember 2016 og tryggja tvær efstu þjóðirnar sér sæti í úrslitakeppninni.

Ásta Birna kemur til móts við íslenska landsliðið í dag en leikurinn fer fram klukkan 17.00 á morgun að íslenskum tíma.

Ásta Birna Gunnarsdóttir er mjög reyndur leikmaður og mun spila sinn nítugasta landsleik í Antibes á morgun en Ásta hefur skorað 106 mörk í 89 landsleikjum.

Unnur Ómarsdóttir snéri aftur til Gróttu fyrir þetta tímabil og hefur skorað 18 mörk í fyrstu fimm leikjum liðsins á tímabilinu. Ásta Birna Gunnarsdóttir hefur aðeins skorað einu marki minna en Unnur í fyrstu fimm leikjum Olís-deildar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×