Innlent

Kennarar tali við nemendur í gegnum Snapchat

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kennari og sérfræðingur í skólaþróun segir mikilvægt að íslenskir kennarar noti samfélagsmiðla á borð við Twitter og Snapchat í meira mæli til að ná til nemenda og brjóta upp námið. Nemendur eru misopnir fyrir því að nota samfélagsmiðla sem kennslutæki. 

Samfélagsmiðlar verða æ stærri þáttur í lífi fólks. Með aukinni tæknivæðingu fylgja breytingar, en Ingvi Ómarsson hefur undanfarið þróað og kynnt leiðir til að nota samfélagsmiðla við kennslu í íslenskum grunnskólum. Kennarar noti þannig Facebook, Snapchat og Twitter í auknum mæli til að ná til nemenda og brjóta upp námið.  

„Krakkarnir eru þarna inni og þetta er eitt af því sem við þurfum að tileinka okkur. Það er svo margt jákvætt sem hægt er að gera á samfélagsmiðlum og með samfélagsmiðlum,“ segir Ingvi.

Krakkarnir vandi sig oft meira þegar samfélagsmiðlar eiga í hlut. Þannig séu dæmi um að Twitter sé notað sem kennslutæki fyrir nemendur allt niður í fyrsta bekk. Nemendurnir séu til dæmis látnir tísta sem persónur úr Íslendingasögunum.

„Að nota samfélagsmiðla sem skemmtilega leið í námi er klárlega eitthvað sem allir kennarar ættu að gera. Ég veit um kennara í skólum á Íslandi sem eru með nemendur sína á Snapchat og senda þeim að hitt eða þetta sé að gerast á morgun, eða að muna eftir einhverri bók. Svo að þetta er svona eitt af því sem hægt er að gera,“ segir Ingvi.

Við fengum að kíkja við í tíma hjá áttunda bekk í Kópavogsskóla til að kanna hvernig krökkunum sjálfum líst á aukin samskipti við kennara á samfélagsmiðlum. Viðbrögð þeirra má sjá í myndskeiðinu hér að ofan.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×