Menning

Tortelier ráðinn nýr aðalhljómsveitarstjóri Sinfó

Atli Ísleifsson skrifar
Yan Pascal Tortelier er fjórtándi aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá því að sveitin tók til starfa vorið 1950.
Yan Pascal Tortelier er fjórtándi aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá því að sveitin tók til starfa vorið 1950. Mynd/Sinfó
Yan Pascal Tortelier hefur verið ráðinn nýr aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tortelier er ráðinn til þriggja ára og tekur við stöðunni í byrjun starfsársins 2016-17 og stjórnar þá upphafstónleikum starfsársins.

Tortelier hefur stjórnað fjölda hljómsveita, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Orchestre de Paris, Konunglegu Concertgebouw-hljómsveitinni, Fílharmóníuhljómsveitinni í Sankti Pétursborg, Hljómsveit La Scala-óperunnar í Mílanó, Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles og sinfóníuhljómsveitunum í Boston, Chicago og Montréal.

Samstarf frá 1998

Í tilkynningu frá Sinfóníuhljómsveitinni segir að Tortelier hafi átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands allt frá árinu 1998 þegar hann stjórnaði tónleikum á Listahátíð í Reykjavík. Hann stjórnaði einnig sveitinni þegar flutt var í Hörpu 2012 og síðast á tónleikum í mars síðastliðinn.

Tortelier segir að það sé honum mikið gleðiefni að taka við stöðu aðalstjórnanda sveitarinnar. „Samvinna mín við hljómsveitina hefur gengið einstaklega vel og nýja tónlistarhúsið gerir starfið allt mun ánægjulegra en ella. Ég nýt þess að búa til tónlist með hljómsveit sem tekur svo vel í hugmyndir mínar, og er sannfærður um að næstu þrjú árin verði afar mikilvæg í sögu og þróun sveitarinnar. Við munum í sameiningu þróa hljómsveitina áfram, og það er mér mikið kappsmál að við getum náð til tónlistarunnenda víða um heim og deilt með þeim hinum einstöku hæfileikum og tónlistargáfum sem Sinfóníuhljómsveit Íslands býr yfir.“

Tortelier er fjórtándi aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá því að sveitin tók til starfa vorið 1950. Fyrsti aðalstjórnandi hljómsveitarinnar var Norðmaðurinn Olav Kielland, sem starfaði hér á landi frá 1951–1955. Á undanförnum árum hafa gegnt stöðunni þeir Petri Sakari, Osmo Vänskä, Rico Saccani, Rumon Gamba og nú síðast Ilan Volkov.

Tveir stjórnendur gegna heiðursstöðum við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vladimir Ashkenazy er heiðursstjórnandi og Osmo Vänskä er  aðalgestastjórnandi.

Nánar má lesa um ráðninguna á vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.