Handbolti

Góður seinni hálfleikur gerði útslagið í sigri Hauka | Úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Haukakonur fögnuðu sigri í dag.
Haukakonur fögnuðu sigri í dag. Vísir/Vilhelm
Haukakonur unnu átta marka sigur á ÍR á útivelli í Olís-deild kvenna í kvöld en eftir að liðin fóru jöfn inn í hálfleik gerði góður seinni hálfleikur útslagið fyrir Haukakonur.

Jafnræði var með liðunum framan af og fóru liðin inn í hálfleik í stöðunni 14-14. Þá settu Haukakonur einfaldlega í fluggír og keyrðu yfir ÍR-inga í seinni hálfleik og unnu að lokum átta marka sigur.

María Karlsdóttir var atvkæðamest í liði Hauka með níu mörk en Ramune Pekarskyte bætti við sjö mörkum í liði Hauka.

Í liði ÍR var Brynhildur Kjartansdóttir markahæst með sjö mörk en næst kom Karen Tinna Demian með sex mörk.

Afturelding er enn án sigurs í Olís-deild kvenna eftir 24-25 tap gegn Fjölni á heimavelli í dag en úrslitin voru ekki klár fyrr en undir lok leiksins.

Afturelding var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náði mest þriggja marka forskoti í stöðunni 7-4 en Fjölnisliðinu tókst að svara og ná forskotinu fyrir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 10-11.

Fjölniskonur virtust ætla að gera út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks þegar þær náðu fjögurra marka forskoti en Mosfellskonur gáfust ekki upp og unnu sig aftur inn í leikinn. Fengu þær tækifæri til þess að jafna metin á lokamínútunni en sóknin gekk ekki upp.

Díana Kristín Sigmarsdóttir var frábær í Fjölnisliðinu með 10 mörk en Berglind Benediktsdóttir bætti við sex mörkum.

Í liði Aftureldingar var það Hekla Ingunn Daðadóttir sem var atkvæðamest með sex mörk en næstar komu Telma Rut Frímannsdóttir og Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir með þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×