Íslenski boltinn

Glenn: Hann togaði í eyrað á mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Jonathan Glenn missti af gullskónum í dag en hann skoraði annað marka Breiðabliks í 2-0 sigri á Fjölni í Pepsi-deild karla í dag. Honum vantaði eitt mark upp á til að ná gullskónum af Valsmanninum Patrick Pedersen en var rekinn af velli um miðjan síðari hálfleik.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn og hvernig við stóðum okkur í deildinni,“ sagði Glenn hógvær með silfurskóinn í hendi. „Þegar ég kom hingað var markmið okkar að komast í Evrópukeppni og berjast um titilinn. Það tókst og við vorum óheppnir að ná ekki titlinum líka.“

Hann segir að það hafi gengið virkilega vel að skipta um lið á miðju tímabili en hann kom frá ÍBV til Breiðabliks í júlíglugganum.

„Það gekk virkilega vel fyrir sig. Breiðablik tók mjög vel á móti mér og er með frábæran hóp leikmanna og stuðningsmanna. Ég er mjög ánægður með hvernig það gekk allt saman.“

„Ég set alltaf pressu á mig að skora, enda er á inni á vellinum til að skora. Það er gott að vita að öll vinnan sem maður hefur lagt á sig er að borga sig,“ sagði hann.

Glenn fékk að líta rauða spjaldið í dag fyrir að slá til Jonatan Neftali, varnarmann Fjölnis. Neftali hafði brotið á Glenn og beygði sig yfir hann áður en Glenn sveiflaði höndinni að honum.

„Ég fór niður og hann kom að mér og togaði ítrekað í eyrað á mér. Ég sveiflaði höndinni til að koma honum í burtu frá mér en það var það eina sem dómarinn sá. Ég hefði ekki átt að bregðast svona við en þetta var afar pirrandi.“

Óvíst er hvort að Glenn verði áfram í Breiðabliki og á Íslandi. „Hver veit hvað framtíðin beri í skauti sér. Ég er opinn fyrir öllu - líka að spila á Íslandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×