Þrestir fjallar um Ara, sextán ára pilt, sem er sendur vestur á firði af móður sinni. Þar á hann að búa með föður sínum sem hann hefur ekki séð í heil sex ár. Óhætt er að segja að Ari, sem leikinn er af Atla Óskari Fjalarssyni, upplifi margt á þeim mánuðum sem Þrestir nær yfir.
![](https://www.visir.is/i/015B060D1F958658686221132BFDB8DAB8B17BC6C83F4516A00EF1FC1F27D4BD_390x0.jpg)
Myndin er að mestu skotin á Flateyri þar sem söguperónurnar búa og er tónlistin í höndum Kjartans Sveinssonar, fyrrum meðlims Sigur Rósar. Aðstandendur myndarinnar voru klappaðir upp á svið að sýningu lokinni og héldu fjölmargir þeirra og gestir í kjölfarið á Hótel Borg til að fagna forsýningunni.
Sýningin í kvöld var hluti af RIFF kvikmyndahátíðinni en Þrestir hlutu verðlaun á San Sebastián kvikmyndahátíðinni á Spáni í síðustu viku. Þrestir er önnur kvikmynd Rúnars í fullri lengd, sú fyrsta var Eldfjall sem var heimsfrumsýnd á Director's Fortnight-hluta Cannes-hátíðarinnar árið 2011.
Að neðan má sjá stiklu úr Þröstum. Einnig má sjá myndir sem Stefán Karlsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, tók af gestum áður en sýningin fór af stað.