Menning

Útgefandi Forlagsins: „Við gengum of langt“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Jóhann Páll Valdimarsson segir starfsfólk útgáfunnar ekki hafa vitað neitt um málið.
Jóhann Páll Valdimarsson segir starfsfólk útgáfunnar ekki hafa vitað neitt um málið. Vísir/Arnþór
„Ætli sannleikurinn sé ekki sá að ég hafi ekki hugsað þetta til enda. Ekki gerði ég þetta í illum hug,“ segir Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi hjá Forlaginu.

Gustað hefur um bókaforlagið í dag eftir að í ljós kom að Friðrika Benónýsdóttir, blaðamaður Fréttatímans, hafði tekið viðtal við uppdiktaðan höfund í tilefni af útkomu bókarinnar Lausnin. Taldi Friðrika sig hafa tekið viðtal við höfund bókarinnar, Evu Magnúsdóttur, en bókin reyndist hafa verið skrifuð undir dulnefni. Það kom hins vegar ekki fram í samtölum Friðriku við „Evu“ sem fóru alfarið fram í tölvupósti né í samtali við kynningarfulltrúa Forlagsins. Með viðtalinu var birt mynd af konu sem í raun og veru má finna á myndasíðum á netinu. Druslubækur og doðrantar greindu frá því í gær.

Starfsfólkið vissi ekki að um dulnefni var að ræða

Jóhann Páll segir Árna Þór Árnason kynningarfulltrúa Forlagsins hafa verið í góðri trú um að Eva Magnúsdóttir væri raunverulegur einstaklingur og þá var Sigþrúði Gunnarsdóttur, ritstjóra bókarinnar, heldur ekki tjáð að um dulnefni væri að ræða.

Sjá einnig: Einn reyndasti menningarblaðamaður landsins blekktur

„Það er bara ég einn sem veit hver þessi höfundur er. Starfsfólk fyrirtækisins veit ekkert um það. Það er einfaldlega að kröfu höfundar sem ég hef heitið trúnaði,“ útskýrir Jóhann Páll. „Við getum sagt að þetta hafi verið samantekin ráð, það er að segja ég og höfundurinn.“ Hann segist biðja blaðamanninn, Friðriku, velvirðingar á málinu.

„Í mínum huga var þetta meiri samkvæmisleikur en staðreyndin er sú að höfundurinn vill halda nafni sínu leyndu. En það má vel vera að það hafi verið of langt gengið og mér þykir það mjög leitt.“ Hann segist ekki hafa búist við því að uppátækið yrði tekið jafn alvarlega og raun ber vitni.

Höfundurinn svaraði sjálfur spurningum Friðriku

Jóhann Páll bendir á að það hafi tíðkast lengi að bækur komi út undir dulnefnum. „Hvort heldur sem er að það sé tekið fram að um dulnefni sé að ræða en svo er það einnig nokkurra alda gamalt að bækur komi út undir dulnefni og ekkert tekið fram um það.“ Hann segist ekki þekkja söguna hvað varðar það að dulnefnishöfundar fari í viðtöl, það hafi ef til vill verið mistök.

Friðrika var áður menningarritstjóri Fréttablaðsins.
Hann segist vona að málið hafi ekki alvarlegar afleiðingar en nú er jólabókaflóðið á næsta leyti. „Við erum nú ekki þekkt af óvönduðum vinnubrögðum.“

En staðreyndin er samt sú að það er verið að villa á sér heimildir?

„Já það er auðvitað ástæðan fyrir því að ég bið blaðamanninn velvirðingar. Þarna fórum við of langt. Við gengum of langt.“

Já þú viðurkennir það?

„Já, já, já. Við fórum of langt. Auðvitað þykir mér það mjög leitt að valda blaðamanni vonbrigðum og leiðindum með því.“

Jóhann Páll segist ekki geta gefið upp hver höfundurinn er en telur rétt að upplýsa það að höfundurinn sjálfur svaraði spurningum Friðriku. Þá segir Jóhann Páll að myndin sem birtist með fréttinni hafi komið frá höfundinum sjálfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.