Erlent

Krufðu ljón fyrir framan börn

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá krufningunni.
Frá krufningunni. Vísir/EPA
Starfsmenn dýragarðsins í Óðinsvéum í Danmörku krufðu níu mánaða gamalt ljón fyrir framan stóran hóp fólks í dag. Krufningin var ætluð til menntunar barna og var gerð á frídegi í skólum í landinu. Uppátækið hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum.

Á milli þrjú og fjögur hundruð manns, þar á meðal fjölmörg börn, fylgdust með krufningunni.

Á Facebook síðu dýragarðsins hafa fjölmargir sett inn færslu þar sem krufningunni er mótmælt. Enskumælandi fólk skrifar að krufningin sé „ógeðsleg“ og engin leið til að kenna börnum um náttúruna, svo eitthvað sé nefnt.

Þó stíga margir Danir fram og styðja dýragarðinn. Þar að auki virðast börnin hafa haft gaman af ef marka má myndband DR. Eitt barn sem DR ræddi við sagði þetta hafa verið skemmtilega upplifun, en þó hefði þetta verið frekar ógeðslegt.

Í febrúar í fyrra varð dýragarðurinn í Kaupmannahöfn fyrir mikilli gagnrýni eftir að gíraffa var slátrað þar og kjöt af honum var kastað til ljóna fyrir framan börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×