Innlent

Skólastjórar segja upp

Guðrún Ansnes skrifar
Húsakynni Ríkissáttasemjara eru í Borgartúni í Reykjavík.
Húsakynni Ríkissáttasemjara eru í Borgartúni í Reykjavík.
Á ársfundi Skólastjórafélags Íslands um helgina kom fram mikil kergja meðal skólastjórnenda og áhyggjur vegna yfirvofandi uppsagna.

„Þar stóðu fjölmargir skólastjórnendur upp og sögðu frá því að þeir væru að íhuga uppsagnir, eða væru hreinlega búnir að því,“ segir Ingileif Ástvaldsdóttir, varaformaður félagsins. Algjört skilningsleysi Sambands sveitarfélaga einkenni andrúmsloftið, þar sem ekki virðist skilningur á þeirri ábyrgðar sem skólastjórnendur beri. Dæmi séu um að kennarar fái hærri laun en stjórnendur. Stjórnendur hafi þannig verið settir út í kuldann meðan gengið hafi verið frá samningum við kennara.

Ingileif Ástvaldsdóttir, varaformaður Skólastjórafélags Íslands.
Í ályktun félagsins segir að helsta leið skólastjórnenda til að bæta kjör sín virðist að segja upp og snúa aftur til kennslu. Ingileif segir eðlilegt að skólastjórnendur hugi að öðrum leiðum til kjarabóta, enda hafi þeir ekki verkfallsrétt.

Náist ekki samningar segir Ingileif að tapast gæti dýrmæt reynsla, sem erfitt sé að bæta. Því sé mikilvægt að Samband íslenskra sveitarfélaga átti sig raunverulega á að skólastjórnendur með reynslu skipti miklu máli, svo hægt verði að koma í veg fyrir yfirvofandi fjöldaflótta úr stéttinni og þurfi að bregðast við kallinu strax. 

Samninganefndir Skólastjórafélagsins og sveitarfélaganna funda hjá ríkissáttasemjara í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×