Lífið

Umdeild könnun á Útvarpi Sögu: Langflestir treystu Bubba í gær en 5% í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Bubbi Morthens og stjórnendur Útvarps Sögu hafa eldað grátt silfur saman frá því að tónlistarmaðurinn bannaði útvarpsstöðinni að spila lög sín í síðasta mánuði.
Bubbi Morthens og stjórnendur Útvarps Sögu hafa eldað grátt silfur saman frá því að tónlistarmaðurinn bannaði útvarpsstöðinni að spila lög sín í síðasta mánuði. Vísir
Niðurstöður umtalaðrar skoðanakönnunar Útvarps Sögu, þar sem spurt var hvort hlustendur treystu tónlistarmanninum Bubba Morthens, eru um margt einkennilegar. Í gær og í morgun sýndi tölfræðin að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda, rúmlega 40 þúsund manns, sögðust treysta Bubba en á síðu útvarpsstöðvarinnar nú stendur að þessu sé öfugt farið, rúmlega 40 þúsund segjast ekki treysta honum.

Alls bárust 44.442 atkvæði, margfalt fleiri en í nokkurri könnun sem útvarpsstöðin hefur áður birt. Til samanburðar má nefna að sennilega sú allra umdeildasta til þessa, þar sem spurt var hvort hlustendur treystu múslimum, taldi alls 4.614 atkvæði. Kannanirnar eru þó þess eðlis að þátttakendur geta greitt atkvæði eins oft og þeir vilja.

Sem fyrr segir, segir könnunin nú að langflestir hafi sagst ekki treysta Bubba, alls 41.997. 2.188 segist treysta honum en 257 séu hlutlausir. Þessu var þó þveröfugt farið í gær, en þá sögðust rúmlega 40 þúsund manns treysta söngvaranum. Þess má geta að í fyrradag fjallaði Vísir um þátttöku í könnuninni, þá höfðu rúmlega 2.600 tekið þátt og naumur meirihluti, 1.293 gegn 1.212, sagðist ekki treysta Bubba.

Sjá einnig: Að minnsta kosti 1300 treysta ekki Bubba Morthens

Jafnframt vekur athygli að á skýringarmyndinni með könnuninni er fjöldi þeirra sem kusu „nei“ litaður rauður en þeirra sem kusu „já“ gulur. Þessu er þveröfugt farið í öllum eldri könnunum stöðvarinnar.

Bubbi Morthens og stjórnendur Útvarps Sögu hafa eldað grátt silfur saman frá því að tónlistarmaðurinn bannaði útvarpsstöðinni að spila lög sín í síðasta mánuði. Sagði hann stöðina ala á fordómum og mannhatri og að hún þrifist í „andlegum skugga.“

Ekki náðist í Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, við gerð þessarar fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.