Fjölmennt var í forsýningarpartýi heimildaþáttaraðarinnar Kaninn sem fór fram á veitingastaðnum Just Wingin' It á Snorrabraut í gærkvöld.
Um er að ræða fjögurra þátta seríu sem verður frumsýnd á Stöð 2 og Stöð 2 Sport þann 24. nóvember næstkomandi.
Jóhann Alfreð Kristinsson, lögfræðingur og grínisti, Andri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Landspítalans, og Hrafn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður, eru höfundar þáttanna sem segja frá bandarískum körfuboltamönnum sem hafa leikið hér á landi síðan fyrstu leikmennirnir komu til Íslands um miðbik áttunda áratugsins.
Hér að neðan má sjá stiklu úr þáttunum:
Höfundarnir heimsóttu nokkrar af goðsögnum efstu deildarinnar, svo sem Shouse, Rondey Robinson og Frank Booker, sem settu mark sitt á íþróttina og samfélagið. Í þáttunum velta þeir upp þeirri spurningu hvernig það er að fara frá því að spila fyrir þúsundir áhorfenda í háskólaboltanum í Bandaríkjunum, yfir í að halda áfram að elta drauminn á lítilli eyju í Norður-Atlantshafi.
Hulda Margrét ljósmyndari mætti á svæðið og myndaði gleðskapinn.