Erlent

Afnema lög um eitt barn

Samúel Karl Ólason skrifar
Börn að leik í Kína.
Börn að leik í Kína. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Kína ætla að breyta lögum sem heimila hjónum að eignast einungis eitt barn. Þess í stað verður leyfilegt að eignast tvö börn. Ríkisrekni fjölmiðillinn Xinhua sagði frá þessu fyrir skömmu, en ákvörðunin var tekin á fundi yfirstjórnar Kommúnistaflokksins í Kína, þar sem unnið er að nýrri fimm ára áætlun fyrir landið.

Árið 2013 var undanþágum bætt við lögin, sem gerðu pörum sem búa í þéttbýlum að eignast annað barn, en fá pör nýttu sér þá undanþágu, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Lögin hafa verið í gildi í meira en þrjá áratugi og stjórnvöld segja þau eiga stóran þátt í uppgangi efnahags landsins. Hins vegar hefur kínverska þjóðin elst hratt, vinnuafl minnkað og skakkt hlutfall hefur verið á milli kynjanna í Kína.

Pör, og þá sérstaklega þau sem höfðu búsetu á dreifbýlum svæðum, hafa frekar viljað eignast drengi en stúlkur um árabil. Það hefur leitt til mikils kynjahalla í Kína. Þá hafa lögin orðið til fjölda fóstureyðinga og útburða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×