Innlent

Doktor í vinnusálfræði fenginn til að greina samskiptavanda innan lögreglunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, en vinnusálfræðingurinn átti meðal annars að taka viðtöl við yfirstjórn lögreglunnar.
Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, en vinnusálfræðingurinn átti meðal annars að taka viðtöl við yfirstjórn lögreglunnar. vísir
Innanríkisráðuneytið fékk doktor í vinnusálfræði til þess að greina hvort að samskiptavandi væri til staðar innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, og ef svo væri hver rót vandans væri og hvernig mætti bæta úr honum.

Þetta kemur fram í bréfi sem innanríkisráðuneytið sendi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í apríl síðastliðnum og Vísir hefur undir höndum. Áætlað var að vinnusálfræðingurinn, Leifur Geir Hafsteinsson, myndi skila af sér skýrslu til ráðuneytisins mánuði síðar. Ekkert bólar hins vegar á þeirri skýrslu, fimm mánuðum síðar.

Í bréfinu kemur fram að ráðuneytinu hafi borist ábendingar um að innan lögreglunnar væri samskiptavandi. Þessar ábendingar voru ræddar við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra, og var í kjölfarið ákveðið að ráðuneytið fengi utanaðkomandi ráðgjafa til að greina vandann.

Greiningarvinna Leifs Geirs átti meðal annars að felast í viðtölum við yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, viðtölum við aðra starfsmenn eftir þörfum auk þess sem leggja átti spurningalista fyrir starfsmenn.

Eins og áður segir er Sigríður Björk lögreglustjóri en aðstoðarlögreglustjórar eru þau Alda Hrönn Jóhannsdóttir, ein nánasta samstarfskona Sigríðar Bjarkar um langt skeið, og Jón H. B. Snorrason.

Lögreglustjórinn sagði á dögunum í samtali við RÚV að samskiptaerfiðleikar hefðu ekki áhrif á starfsemi embættisins, þótt menn greini á um áherslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×