Innlent

Kyrrsetningarmál eiganda Strawberries sent aftur í hérað

Birgir Olgeirsson skrifar
 Í dómi Hæstaréttar kom fram að liðið hefðu meira en fjórar vikur frá því málið var tekið til úrskurðar og þar til hann var kveðinn upp.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að liðið hefðu meira en fjórar vikur frá því málið var tekið til úrskurðar og þar til hann var kveðinn upp. Vísir/Stefán
Hæstiréttur hefur vísað úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, um kyrrsetningu eigna sem tengjast Viðari Má Friðfinnssyni, eiganda kampavínsstaðarins Strawberries, aftur heim í hérað. Viðar kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar eftir að kröfu hans um að felld yrði úr gildi kyrrsetning á eignum hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að liðið hefðu meira en fjórar vikur frá því málið var tekið til úrskurðar og þar til hann var kveðinn upp.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála hefði borið að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar málsins teldu það óþarft. Málið hefði ekki verið flutt að nýju og mætti ekki ráða að aðilum hefði verið gefinn kostur á því né að þeir hefðu lýst yfir þess gerðist ekki þörf og dómari væri því sammála. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar að nýju.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kom fram að í október árið 2013 hafi hafist rannsókn lögreglunnar vegna ætlaðrar sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanna og starfsmanna veitingastaðarins sem rekinn var undir heitinu Strawberries í Reykjavíkur.

Við nánari skoðun vaknaði einnig grunur um stórfelld skattalagabrot og einnig grunur um brot gegn lögum um peningaþvætti. Gögn málsins þóttu benda til gríðarlegs ávinnings af ætluðum brotum og af þeim sökum var farið fram á kyrrsetningu á eignum Viðars Más.

Fyrr í ár hafði Hæstiréttur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um kyrrsetningu á eignum Viðars Más vegna rannsóknar lögreglu í sama máli. Vísir sagði frá því þá að Viðari Má yrði ekki birt ákæra fyrir vændi, mansal eða fyrir að hafa haft milligöngu um vændi. Ríkissaksóknari taldi rannsóknargögn málsins ekki nægileg eða líkleg til sakfellingar og var málið því fellt niður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×