„Bankinn hefur verið í söluferli og heldur það áfram. Við höfum fundið fyrir áhuga frá erlendum aðilum og lítum á eignarhald ríkisins sem tímabundið,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu vegna tillagna kröfuhafa Glitnis um að ríkið eignist Íslandsbanka.
Þá segir hún jafnframt að nái tillögurnar fram að ganga taki þær ekki gildi fyrr en um áramót. Þá eru tillögurnar auk þess háðar því að nauðasamningar náist.
„Við erum bjartsýn á breytt eignarhald. Starfsfólk bankans er ýmsu vant og heldur sínu jafnaðargeði. Hvorki starfsfólk né viðskiptavinir munu finna fyrir breytingum en þetta mun skýrast smám saman. Staða bankans er góð og eiginfjárstaðan sterk,“ segir Birna.
Tillögur kröfuhafanna hafa vakið mikla athygli í dag en tilkynning um þær barst frá fjármálaráðuneytinu í nótt. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í viðtali við fréttastofu fyrr í dag að menn hafi meðal annars ofmetið möguleikana á sölu Íslandsbanka í tengslum við losun hafta.
Líta svo á að eignarhald ríkisins verði tímabundið

Tengdar fréttir

Bjarni: Menn ofmátu möguleika á sölu Íslandsbanka
Fjármála- og efnahagsráðherra segir að afhending slitabús Glitnis á Íslandsbanka til ríkisins sé að hluta til komin því slitabú Glitnis hafi ofmetið möguleikana á því að selja bankann fyrir gjaldeyri.

Segir ríkisstjórnarflokkana eiga Íslandsmet í spillingu við sölu ríkisbanka
Formaður Samfylkingarinnar sparar ekki stóru orðin á Alþingi.

Mikilvægt að bankar séu ekki reknir eins og spilavíti
Formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir mikilvægt að bankarnir verði í íslenskri eigu og að þeir verði reknir fyrir samfélagið en ekki eins og spilavíti.

Kröfuhafar vilja að Íslandsbanki fari að fullu til ríkisins
Hópur kröfuhafa Glitnis hefur lagt fram tillögu um að ríkið eignist 95 prósenta hlut í Íslandsbanka með því að ISB holding afsali sér hlutnum í bankanum, sem hluta af stöðugleikaframlagi.