Handbolti

Óli Stef verður á skýrslu hjá Val í dag | Lék síðast með liðinu fyrir 19 árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur lék tvo leiki með Kolding í Meistaradeild Evrópu í mars.
Ólafur lék tvo leiki með Kolding í Meistaradeild Evrópu í mars. vísir/daníel
Ólafur Stefánsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði, hefur tekið skóna af hillunni og verður samkvæmt heimildum Vísis í leikmannahópi Vals þegar liðið mætir Akureyri í Olís-deild karla í handbolta í dag.

Báðar örvhentu skyttur Vals, Ómar Ingi Magnússon og Geir Guðmundsson, eru frá vegna meiðsla og því verður Ólafur til taks í dag.

Ólafur lék síðast með Val árið 1996 en síðasti leikur hans fyrir félagið var gegn KA 5. apríl það ár. Ólafur skoraði þá fjögur mörk í 25-17 sigri Vals en með honum tryggði liðið sér Íslandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð.

Ólafur lagði skóna á hilluna vorið 2013 og hefur ekki spilað síðan þá ef frá eru taldir tveir leikir með KIF Kolding Köbenhavn í Meistaradeild Evrópu í mars á þessu ári.

Ólafur stýrði Val tímabilið 2013-14 en hætti skyndilega áður en tímabilið 2014-15 hófst.

Valsmenn sitja á toppnum í Olís-deildinni með 18 stig, tveimur stigum á undan Íslandsmeisturum Hauka. Akureyri er hins vegar í 9. og næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig.

Leikur Vals og Akureyrar hefst klukkan 16:00. Hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×