Lífið

Nóvemberspá Siggu Kling – Sporðdreki: Kemur fleiru í verk en þig hefi grunað

Elsku litríki sporðdrekinn minn. Þegar maður er alveg við það að gefast upp þá kemur kraftaverkið sem leysir vandamálin. Sýndu öðrum hvað þú getur verið sjálfsöruggur þó svo að þér finnist þú alls ekki vera það akkúrat á þessu augnabliki.

Þú þarft að sýna mikla þrjósku í ýmsum málum í kringum þig, sýna fram á það að þú takir ekki nei sem svar í nokkru tilfelli.

Þú þarft að skipuleggja þig og þó að eitthvað gangi ekki upp þá skiptir það engu máli því þú ert að fara hárrétta leið. Þú átt eftir að ljúka svo mörgu í mánuðinum og þótt þér finnist ekki allt vera skemmtilegt í þessari nóvembergöngu er þetta samt sterkasti mánuðurinn þinn á öllu árinu. Og þú kemur miklu fleiru í verk en þig hefði nokkurn tímann grunað!

Þetta tímabil er svipað því að fara í teygjustökk. Það verður mikil spenna og kannski ekki gáfulegt að henda sér í teygjustökk það er eins með lífið, það er kannski ekki allt gáfulegt sem maður gerir en það skapar samt þessa skemmtilegu sögu sem heitir ævisaga!

Þú verður svo stórkostlega ánægður með margt sem þú átt eftir að upplifa og þá sérðu að það sem þú ert búinn að leggja á þig var vel þess virði. Þú átt eftir að elska adrenalínkikkið sem lífið er að gefa þér. Og þó þú sért ekki að fara auðveldustu leiðina þá ertu að fara þá skemmtilegustu.

Þú getur verið svo ótrúlega sannfærandi, nýttu þér það og sannfærðu þá sem eru í kringum þig um að hjálpa þér að ná þeirri stöðu sem þú vilt vera í, það er ekkert mál fyrir þig, elskan mín.

Það er mögnuð ástríða allt í kringum þig og þú getur notað hana bæði til að tengja þig við manneskjur sem þig langar til að tengjast og til þess að hjálpa þér að skína og ná markmiðum þínum.

Mottó: Ég elska lífið

Frægir sporðdrekar: Dísa í World Class, Helga Braga Jónsdóttir leikkona, Björk Guðmundsdóttir söngkona, Scarlett Johansson leikkona, Whoopie Goldberg leikkona, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir sjónvarpskona, Emmsjé Gauti rappari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×