Innlent

Ekki verður reynt að koma Perlu á flot um helgina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alla vikuna hafa menn reynt að koma Perlu á flot án árangurs.
Alla vikuna hafa menn reynt að koma Perlu á flot án árangurs. Vísir/Vilhelm
„Ég á ekki von á því að það verði neinar tilraunir núna um helgina,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóhafna um stöðuna á björgunaraðgerðum vegna skipsins Perlu sem sökk í Reykjavíkurhöfn á mánudaginn.

Stefnt er að því að Björgun og þeir sem hafa unnið að því að ná skipinu á flot undanfarna daga muni hittast í hádeginu til þess að ráða ráðum sínum um framhald aðgerða en líklega verður ekki meira gert um helgina til þess að ná skipinu upp.

„Stundum er það nú þannig að kappið vill bera fegurðina ofurliði en aðalatriðið er að við þurfum ekki að flýta okkur. Við þurfum bara að vanda til verka,“ segir Gísli en veðuraðstæður í höfuðborginni eru ekki hagstæðar, enda bæði hvassviðri og talsverð úrkoma.

Gísli segir að ekki stafi hætta af olíumengun úr skipinu þrátt fyrir að um 12.000 lítrar af olíu og 800 lítrar af af glussa séu enn um borð.

„Mengunarhætta á ekki að vera fyrir hendi. Það er búið að ganga tryggilega frá þeirri olíu sem er um borð í skipinu. Við getum verið rólegir um sinn en þetta er auðvitað metið dag frá degi hvernig staðan er.“

Perla sökk á mánudaginn og eru ástæður þess enn ókunnar. Talið er líklegt að gleymst hafi að loka fyrir botnloka skipsins áður en það var sett á flot.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×