Innlent

Tilraunum til að koma Perlu á flot hætt í kvöld

Bjarki Ármannsson skrifar
Perla situr áfram á botni Reykjavíkurhafnar.
Perla situr áfram á botni Reykjavíkurhafnar. Vísir/Vilhelm
Ítrekaðar tilraunir nú í kvöld til að koma sanddæluskipinu Perlunni á flot í Reykjavíkurhöfn báru ekki árangur og hefur störfum björgunaraðila verið hætt í bili. Hallur Árnason, öryggisfulltrúi hjá Faxaflóahöfnum, segir að áfram hafi flætt inn í skipið, þó það hafi að vísu farið hátt upp að þessu sinni.

„Það vantaði ekki mikið upp á að ná skipinu upp,“ segir Hallur. Hann treystir sér þó ekki í að fullyrða hversu mikið vantaði upp á.

„Fyrr valt skipið yfir á bakborðshliðina. Núna veltist það yfir á stjórnborðshliðina,“ segir hann. „Það er bara látið síga aftur og við þurfum núna bara að finna út úr því hvers vegna við náum ekki framhlutanum upp.“

Á morgun stendur til að fulltrúar Faxaflóahafna ræði við björgunaraðila um næstu skref.

„Þetta tekst,“ segir Hallur aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að tilraunir til að koma Perlu á flot beri brátt árangur. „Skipið er ekki látið liggja, það verður ekki hætt fyrr en þetta er búið. Það verður bara að hafa tíma til að gera hlutina örugglega.“


Tengdar fréttir

Vonast til að geta unnið við að þétta Perlu í dag

Veðurhorfur eru þannig að útlit er fyrir að kafarar geti í dag athafnað sig við sanddæluskipið Perlu, sem liggur á botni Reykjavíkurhafnar, en þeir gátu ekkert aðhafst í gær vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×