Handbolti

Umfjöllun: Noregur - Ísland 27-28 | Björgvin skellti í lás á lokakaflanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska liðið tryggði sér sigurinn með góðum endaspretti.
Íslenska liðið tryggði sér sigurinn með góðum endaspretti. Vísir/Ernir
Íslenska handboltalandsliðið lagði það norska að velli, 27-28, í Gulldeildinni, æfingamóti sem fer fram í Noregi. Ásamt heimamönnum og Íslandi taka Danmörk og Frakkland þátt í mótinu.

Norðmenn voru með yfirhöndina lengst af en íslenska liðið átti frábæran endasprett þar sem Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum en hann varði alls 24 skot í leiknum.

Björgvin skellti hreinlega í lás á lokamínútum og varði sjö af níu síðustu skotum Norðmanna. Hann kórónaði svo stórleik sinn með því að verja dauðafæri frá Thomas Kristensen á lokasekúndunum þegar hann gat jafnað metin í 28-28.

Ísland var í vandræðum lengi vel en íslensku strákarnir voru fjórum mörkum undir, 25-21, þegar 11 mínútur voru eftir af leiknum. Íslenska liðið vann hins vegar þessar síðustu 11 mínútur leiksins 7-2 og tryggði sér þar með sigurinn.

Aron Pálmarsson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk en þar af komu sex í fyrri hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson kom næstur með sex mörk.

Þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 15-15 en íslenska liðið gat vel við unað að vera með jafna stöðu í hálfleik.

Vörnin var slök en það var íslenska liðinu til happs að Björgvin var í góðum gír í markinu og varði alls 10 skot í fyrri hálfleik, eða 40% þeirra skota sem hann fékk á sig.

Annars var það Aron sem hélt íslenska liðinu á floti í upphafi leiks en Veszprém-maðurinn sá bara um markaskorunina framan af. Aron skoraði sex af fyrstu sjö mörkum Íslands og átti stoðsendinguna í hinu markinu.

Norðmenn komust nokkrum sinnum fjórum mörkum yfir en um miðjan fyrri hálfleik fóru þeir að tínast út af og íslenska liðið nýtti sér liðsmuninn ágætlega.

Vörnin opnaðist reyndar nokkrum sinnum illa í yfirtölunni en sóknarleikurinn var góður og batnaði með innkomu Rúnars Kárasonar og Ólafs Bjarka Ragnarssonar sem komu inn fyrir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Arnór Atlason sem fundu sig ekki.

Rúnar skoraði þrjú mörk með sínum frægu þrumuskotum og þökk sé þeim og góðri markvörslu Björgvins tókst íslenska liðinu að jafna.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri - á hælunum. Norðmenn voru duglegir að keyra í bakið á íslensku strákunum sem voru afar seinir til baka. Noregur skoraði sex af fyrstu átta mörkum seinni hálfleiks og komst fjórum mörkum yfir, 21-17, þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.

Íslenska liðið var í vandræðum næstu mínúturnar en þó alltaf í seilingarfjarlægð og lenti aldrei meira en fjórum mörkum undir. Það var svo í stöðunni 25-21 sem Ísland gaf virkilega í og náði að tryggja sér sigurinn.

Eins og áður sagði var Aron markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk. Guðjón Valur kom næstur með sex mörk en fyrirliðinn skoraði tvö síðustu mörk Íslands í leiknum. Rúnar átti einnig flottan leik með fjögur mörk og Kári Kristjánsson spilaði vel í sínum 100. landsleik; skoraði þrjú mörk og fiskaði eitt víti í seinni hálfleik.

Ísland mætir Frakklandi á laugardaginn og lýkur svo leik í Gulldeildinni gegn Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans í danska landsliðinu á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×