Lífið

Hafdís Huld með nýja barnaplötu: „Hún var mjög hreinskilin um hvað ætti að vera á plötunni“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dóttir Hafdísar aðstoðaði við gerð plötunnar.
Dóttir Hafdísar aðstoðaði við gerð plötunnar. vísir
Barnavísur er ný plata frá Hafdísi Huld en um er að ræða barnaplötu sem inniheldur tuttugu þekkt barnalög í nýrri útsetningu.

„Ég vann þessa plötu með manninum mínum honum Alisdair Wright. Þetta eru bæði lög sem eru mikið sungin í leikskólum og svo líka lög sem ég söng sem barn og eru kannski aðeins að gleymast. Upptökur fóru fram í stúdíóinu okkar í Mosfellsdalnum og það var oft ansi líflegt í stúdíóinu þegar margir litlir söngvarar voru saman komnir.“

Hafdís og Alisdair sendu frá sér plötuna Vögguvísur árið 2012.

„Þá var ég ólétt af dóttur okkar Arabellu Iðunni. Vögguvísur fékk frábærar móttökur og Barnavísur er nokkurskonar framhald. Platan er unnin með börn á leikskóla aldri í huga þannig að það má kannski segja að plöturnar vaxi með dóttur okkar.

Hafdís segir að það hafi verið mjög hjálplegt að vera með 3 ára tónlistastjóra á heimilinu

„Hún var mjög hreinskilin um hvað ætti að vera á plötunni og hvað ekki. Það fylgir líka svolítið þessum aldri að vilja hlusta aftur og aftur á sama lagið, sérstaklega í bílnum þannig að við vorum meðvituð um nauðsyn þess að hafa útsetningarnar á plötunni bæði barn og foreldravænar.“

Hér að neðan má sjá glænýtt myndband við fyrsta lagið á plötunni Ein ég sit og sauma.

„Vinnan við myndbandið var afslöppuð og skemmtileg. Við sögðum vinum og fjölskyldu að við værum að gera myndband og að öllum krökkum sem vildu koma og túlka lagið væri velkomið að vera með. Útkoman er einlægt og skemmtilegt myndband þar sem frábærir karakterar á aldrinum 1- 12 ára láta ljós sitt skína.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.