Líkt og fregnir hafa gefið til kynna mun 50 manna sveit sérsveitarmanna halda til n-Sýrlands en þar hafa hersveitir Kúrda og Araba, dyggilega studdar loftárásum og vopnasendingum Bandaríkjanna og bandamanna, þjarmað að ISIS og þá sérstaklega höfuðborginni Raqqa.
Kúrdar hafa þjarmað að ISIS undanfarna mánuði
Fyrr á árinu náðu hersveitir Kúrda valdi yfir mikilvægri flutningaleið sem þjónaði Raqqa og ISIS og síðan þá hefur yfirráðarsvæði Kúrda stækkað á kostnað yfirráðasvæðis ISIS. Kúrdar náðu yfirráðum yfir bænum Tal Abyad í n-Sýrlandi, var það þungt högg fyrir ISIS þar sem bærinn var miðstöð verslunar og smygls ISIS. Einnig hægðist á flæði erlendra vígamanna sem ætluðu sér að ganga til liðs við ISIS.
Síðan þá hafa Kúrdar sótt að Raqqa, náð völdum yfir nágrannabæjum og eru hersveitir þeirra nú um 50 kílómetra frá Raqqa og talið er víst að sókn sé í undirbúningi.

Hernaðarsérfræðingar segja að bandarísk yfirvöld hafi gert sér grein fyrir því að Kúrdar séu megnugir til þess að ná árangri í baráttunni gegn ISIS og að þeir séu í aðstöðu til þess að ná borginni Raqqa á sitt vald. Það yrði mikið áfall fyrir ISIS og því hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti tekið ákvörðun um að senda hóp sérsveitarmanna til n-Sýrlands.
Þeir munu ekki taka þátt í beinum hernaðaraðgerðum. Frekar munu þeir einbeita sér að því að þjálfa heri Kúrda og Araba og gera þá skilvirkari í baráttunni gegn ISIS með því að skipuleggja hernaðaraðgerðir.
Mikið áfall fyrir ISIS skyldu þeir missa Raqqa
Muni ISIS missa yfirráðin yfir Raqqa yrði það mikið áfall fyrir ISIS. Frá því að Raqqa féll í hendur hefur enginn hópur getað ógnað yfirráðum ISIS yfir borginni.
Raqqa hefur orðið að tákni ISIS og merki um það að samtökin séu meira en bara hryðjuverkasamtök. Yfirráð ISIS yfir Raqqa hafa styrkt þá ímynd ISIS að það sé ríki sem geti farið með yfirráð yfir borgum og stórum landssvæðum. Falli Raqqa yrði það því mikið áfall fyrir ímynd ISIS.
Ekki má þó búast við því að hersveitir Kúrda valsi inn í miðbæ Raqqa á næstunni. Þrátt fyrir að ISIS hafi misst landsvæði á undanförnum mánuðum eru hersveitir ISIS ennþá í fullu fjöri og því er talið líklegt að markmið Bandaríkjanna og Kúrda sé að einangra Raqqa frá landssvæðum ISIS á næstu mánuðum.
Hér fyrir neðan má sjá gróft kort af stöðu mála í Sýrlandi samkvæmt greiningu Institute for United Conflict Analysis.