„Luckett er náttúrulega einn sá fremsti á sínu sviði í heiminum í dag, og gríðarlega vel tengdur svo þetta verður spennandi,“ segir Róbert. Aðspurður hvernig standi á að þrír ungir Hafnfirðingar sem saumi og hanni föt rati í fangið á slíkum bandarískum stórlaxi segir Róbert það samstarf allt að því tilviljunarkennt.
„Við fréttum af honum á landinu, og hittum hann svo fyrir slysni niðri í bæ. Þá gripum við gæsina og sögðum honum frá okkur, og hvernig við höfðum náð ansi góðum árangri á samfélagsmiðlunum með okkar vöru, og ætli hann hafi ekki bara séð eitthvað í okkur sem hann tengdi við.
Auk þeirrar staðreyndar að Guðjón saumar allar vörurnar, og hann hefur sjálfur tekið upp á að læra að sauma með hjálp YouTube,“ segir Róbert og bendir á að Luckett sé enginn smákarl þegar kemur að stórsigrum á samfélagsmiðlunum en hann ber meðal annars ábyrgð á Selfie-song, sem tröllreið öllu, og rúmlega það, árið 2014. Þá hefur hann komið Disney á kortið á samfélagsmiðlunum og eflaust kannast flestir við herferðina „My Calvins“, fyrir nærfatalínu Calvin Klein, svo örfá dæmi séu nefnd.

Segir Róbert meginmarkmiðið að heilla Bandaríkjamenn upp úr skónum, en hingað til hafa einmitt þeir, Ástralar og Bretar verið æstastir í Inklow-fötin. „Það sem oft þykir líka merkilegt, er að við auglýsum okkur ekkert nema bara á samfélagsmiðlunum og ég held ég geti sagt að við séum langstærsta fatamerkið á Íslandi á Instagram til dæmis, með okkar rúmlega þrjátíu og sex þúsund fylgjendur á Instagram.“
Strákarnir hafa eflst ansi hratt frá því að fyrirtækið var stofnað árið 2013, þá með áttatíu þúsund krónur í start sem þeir höfðu safnað sér í sumarvinnunni það árið.
„Við ákváðum að hjóla í þetta, þar sem við höfðum verið að vinna í tískufataverslunum og höfðum brennandi áhuga á tísku. Okkur fannst þó eitthvað vanta, þar sem allir eru voðalega eins klæddir hérna,“ útskýrir Róbert. Fljótt vatt verkefnið upp á sig og síðan þá hefur greinilega ansi mikið vatn runnið til sjávar, og sífellt birtast fréttir þess efnis að stórstjörnur séu að skarta Inklaw-fatnaði og virðast heimsþekktir íþróttamenn hafa sérlegt dálæti á fötunum.
„Það er svolítið sérstakt en auðvitað gaman, og frábær auglýsing fyrir okkur að sjá menn eins og Robert Lewandowski hjá Bayern München og NBA-leikmanninn Shaun Livingston, sem við sérsaumuðum á, nota fötin okkar,“ segir Róbert að lokum, yfir sig spenntur fyrir komandi tímum.