Lífið

Er aðeins hugsi yfir hálfrar aldar afmælinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Geðið er á uppleið úr krísunni,“ segir Svanhildur hress.
„Geðið er á uppleið úr krísunni,“ segir Svanhildur hress. Mynd/Úr einkasafni
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri hjá borginni, er fimmtug í dag en hyggur ekki á veisluhöld að sinni.

„Ég er ekkert sérstaklega mikil afmælismanneskja, hef meira að segja á liðnum árum gjarnan verið í burtu á afmælinu og ekki verið með neina viðhöfn,“ segir hún.  „En ég hélt fallega og vel upp á fertugsafmælið, eða reyndar voru það vinir og samstarfsmenn og fjölskylda sem gerðu það, og það var svo dásamleg og ógeymanleg upplifun að ég veit ekki hvort hægt er að toppa það.

Því fylgdi líka svo mikil og jákvæð orka að verða fertug en ég er í hálfgerðri krísu yfir þessu fimmtugsafmæli og skammast mín fyrir að viðurkenna það því ég veit að það er ótrúlegt vanþakklæti.

En svo er ég að fá mikla uppörvun og pepp frá fólki sem er komið lengra og því er að takast að sannfæra mig um að þetta sé bara stórkostlegt.

Ég ætla samt ekki að gera neitt sérstakt í dag en þarf að lesa undir próf í viðskiptasiðfræði. Svo er aldrei að vita nema ég splæsi í partý þegar prófið er búið. Geðið er á uppleið úr krísunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×