Erlent

Segir mögulegt að einungis „vikur“ séu í vopnahlé í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
John Kerry og Francois Hollande, forseti Frakklands, funduðu í dag.
John Kerry og Francois Hollande, forseti Frakklands, funduðu í dag. Vísir/EPA
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist vongóður um að einungis nokkrar vikur séu í vopnahlé í Sýrlandi. Um er að ræða vopnahlé á milli stjórnvalda og uppreisnarmanna og Kerry segir að það myndi vera mikilvægt skref í baráttunni gegn Íslamska ríkinu.

Kerry ræddi við blaðamenn í sendiherrabústað Bandaríkjanna í París. Þar sagði hann að hugsanlegt vopnahlé væri byggt á viðræðum í Vín um helgina.

„Þetta er stærðarinnar skref,“ er haft eftir Kerry á vef AP fréttaveitunnar. „Við erum hugsanlega vikur frá stórum breytingum í Sýrlandi. Ég held að fólk gerir sér ekki grein fyrir því, en staðan er þannig.“

Sádi-Arabía mun taka á móti uppreisnarmönnum í næsta mánuði, þar sem þeir munu skipa sendinefnd til að funda með fulltrúum ríkisstjórnar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Samkvæmt þessu fyrirkomulagi, sem samþykkt var í Vín á laugardaginn, verður vopnahléi komið á þegar fundir uppreisnarmanna og stjórnvalda hefjast.

Íslamska ríkið hefur enga aðkomu að þessum samningum, en þeir hafa orðið fyrir hertum árásum eftir árásirnar í París á föstudaginn. Þar að auki ætla Rússar að gefa í gegn þeim eftir að staðfest var að sprengja grandaði rússneskri flugvél yfir Sinaiskaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×