Erlent

Svíar tilkynna tímabundið landamæraeftirlit

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá flóttamannabúðum í Svíþjóð.
Frá flóttamannabúðum í Svíþjóð. Vísir/EPA
Anders Ygeman, innanríkisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í kvöld að Svíar myndu hefja tímabundið landamæraeftirlit. Tilgangurinn væri að stjórna flæði innflytjenda til landsins, eftir að lögreglan varaði við auknum óróa í Svíþjóð í kjölfar mikillar fjölgunar flóttafólks.

Eftirlitið mun hefjast á morgun og standa yfir í tíu daga til að byrja með, samkvæmt BBC.

Talið er að um 200 þúsund flóttamenn muni hafa lagt leið sína til Svíþjóðar þegar þessu ári er lokið, sem er meira en annarsstaðar í Evrópu, sé miðað við höfðatölu.

Ygeman sagði á blaðamannafundi að ljóst væri að Svíþjóð væri að bera mesta ábyrgð á flóttamannavandanum. Hann ítrekaði að tilgangurinn með eftirlitinu væri ekki að koma í veg fyrir að flóttamenn kæmu til landsins heldur til þess að halda utan um komu þeirra.

Með því væri hægt að skrá alla flóttamenn og koma í veg fyrir að innflytjendur komi sér þar fyrir ólöglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×