Leikjavísir

Frískað upp á slappa seríu

Samúel Karl Ólason skrifar
Jacob og Evie Frye kynnast fjölmörgum sögufrægum aðilum í baráttu sinni gegn Musterisriddurunum.
Jacob og Evie Frye kynnast fjölmörgum sögufrægum aðilum í baráttu sinni gegn Musterisriddurunum. Vísir/Ubisoft
Assassins Creed Syndicate tekst vel að rífa upp leikjaseríu sem var byrjuð að dala nokkuð. London árið 1868 er skemmtileg borg að heimsækja og eins og áður er nóg að gera í leiknum. Jafnvel of mikið. Leikurinn er skemmtilegur og í stað þess að Ubisoft hafi reynt að bæta við gömlu leikina á varhugaverðan hátt, hafa grunnatriði Assassins Creed verið löguð til og fínpússuð.

Þó er ekki hægt að segja að engar nýjungar líti dagsins ljós. Meðal annars er hægt að aka hestvögnum og nota reipisbyssu til að klifra upp veggi á skjótan hátt. Óhætt er að segja að leikirnir hafi í raun tekið stakkaskiptum frá því að Altaïr Ibn-La'Ahad myrti fólk í Jerúsalem á tímum krossfaranna.

Lengi hafa verið vandræði með klifur og hlaup karaktera leikjanna, en þeim tilvikum þar sem þessi vandræði líta dagsins ljós hefur fækkað til muna. Þá var síðasti leikur seríunnar, Unity, fullur af útlitsgöllum við útgáfu, en það er ekki að sjá að þessu sinni.





Syndicate er níundi leikurinn í seríunni, en auk þessara níu leikja hafa þrettán aðrir verið gefnir út. Fyrsti leikurinn var gefinn út árið 2007 svo ljóst er að Ubisoft hefur ekki slakað á við framleiðsluna. Þá verður kvikmynd sem byggð er á sögu leikjanna frumsýnd á næsta ári.

Að þessu sinni stýra spilarar tveimur launmorðingjum, sem hægt er að skipta á milli eftir því hvor hentar fyrir verkefnið sem liggur fyrir. Um er að ræða tvíburana Jacob og Evie Frye. Jacob hentar betur til bardaga og Evie hentar betur þegar þörf er á leynd og laumugangi. Verkefni þeirra er að frelsa London undan harðstjórn Musterisriddaranna, eða Templars, og finna Huluna frá Eden, eða Shroud of Eden.





London á tímum iðnbyltingarinnar lýtur einstaklega vel út.Vísir/Ubisoft
Það gera þau með því að frelsa hverfi fyrir hverfi í gríðarlegra stórri borg sem Ubisoft hefur byggt og að safna mönnum í Hróka-gengið. Í leiðinni hitta systkinin fjölmarga sögufræga aðila, eins og Charles Darwin, Alexander Bell og fleiri.

Leikurinn lítur vel út og er skemmtilegur, eins og áður segir. London er gríðarlega stór og Syndicate virkar vel fínpússaður. Sagan er hins vegar ekki upp á marga fiska og er frekar einföld. Þá er mikið um léttleika og grín sem á vel við þau Jacob og Evie. 

Niðurstaða: Styrkir leiksins eru margvíslegir. Hann lítur frábærlega út og spilunin er hröð og skemmtileg. Iðnbyltingin kemur vel út í Assassins Creed leik, þar sem farið hefur verið víða um. Saga Synidicate er hins vegar frekar einföld og kliskjukennd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.