Erlent

Fjórtán drukknuðu á meðan leiðtogarnir funduðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 650 þúsund manns hafa siglt yfir Eyjahafið frá Tyrklandi til Grikklands.
Um 650 þúsund manns hafa siglt yfir Eyjahafið frá Tyrklandi til Grikklands. Vísir/EPA
Fjórtán flóttamenn drukknuðu í Miðjarðarhafinu í dag á meðan leiðtogar Evrópusambandsríkja og Afríkuríkja funduðu á Möltu. Þar ræddu þeir hvernig hægja mætti á flóð flóttamanna til Evrópu. Bátur flóttafólksins sökk á milli Tyrklands og Grikklands og bjargaði strandgæsla Grikklands 27 manns.

Samkvæmt BBC var fundurinn skipulagður eftir að um 800 flóttamenn drukknuðu þegar skip sökk undan ströndum Líbýu í apríl.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa nærri því 800 þúsund manns ferðast frá Afríku og Mið-Austurlöndum til Evrópu það sem af er árinu. Myndrænt yfirlit yfir fjöldann og leiðir flóttafólks má sjá hér á vef Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Um 150 þúsund manns hafa siglt yfir miðjarðarhafið frá norðurströndum Afríku, en hins vegar hafa um 650 þúsund siglt yfir Eyjahafið frá Tyrklandi til Grikklands.

Búist er við því að leiðtogar Evrópuríkjanna muni bjóða Afríkuríkjunum gífurlegar fjárhæðir fyrir hjálp við að draga úr straumi flóttamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×