Skoðun

Gengur þú með dulda sykursýki?

Jón Bjarni Þorsteinsson skrifar
Félagar í Lionsklúbbum um allt land munu bjóða landsmönnum fría blóðsykurmælingu dagana 12.-14. nóvember í tilefni af alþjóðadegi sykursjúkra sem er á laugardaginn. Markmið blóðsykurmælinga er að greina hugsanlega sykursýki. Á síðasta ári mældum við Lionsmenn blóðsykurinn í nær fjögur þúsund manns og var um 50 manns ráðlagt að leita læknis í kjölfarið.

Við viljum með þessu vekja athygli fólks á hættunni af því að ganga með dulda sykursýki. Okkar menn verða á fjölförnum stöðum víða um land og bjóða blóðsykurmælingu. Hún tekur aðeins stutta stund en hún getur gefið vísbendingu um hvort fólk þjáist af sykursýki án þess að gera sér grein fyrir því. Mælist blóðsykurinn sjö eða hærri ráðleggjum við fólki eindregið að leita læknis. Meðferð getur borið því meiri árangur sem sjúkdómurinn greinist fyrr

Tvær tegundir sykursýki

Til eru tvær tegundir sykursýki. Sykursýki af tegund 1 leggst aðallega á ungt fólk sem ekki hefur sterka ættarsögu. Sykursýki af tegund 2 leggst hins vegar einkum á fullorðna sem oft hafa sterka ættarsögu. Helstu einkenni sykursýki af gerð 2 eru þorsti, tíð þvaglát, þreyta, sjóntruflanir og sveppasýkingar og kláði á kynfærum. Þeim sem hafa þessi einkenni ráðleggjum við eindregið að hafa samband við lækni.

Sykursýki er hættulegur sjúkdómur. Hann er ólæknanlegur en með réttri meðhöndlun er hægt að halda honum í skefjum og forðast fylgikvilla. Mataræði og líkamshreyfing eru hornsteinar meðferðar við sykursýki.




Skoðun

Sjá meira


×