Handbolti

Dagur: Megum ekki gera of mikið úr þessum sigri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson er að gera flotta hluti með þýska liðið.
Dagur Sigurðsson er að gera flotta hluti með þýska liðið. vísir/getty
Þýska landsliðið í handbolta, undir stjórn Dags Sigurðssonar, stóð uppi sem sigurvegari á Supercup-mótinu sem fram fór um helgina, en það er árlegt æfingamót.

Þjóðverjar unnu sannfærandi sigra á Serbíu, 37-26, og Brasilíu, 29-20, áður en Slóvenar voru lagðir að velli, 31-28, í úrslitaleik mótsins. Þýskaland og Slóvenía eru saman í riðli á EM í Póllandi.

„Fyrst og fremst spiluðum við þrjá góða leiki sem er jákvætt. En við þurfum að bæta leik okkar ef við ætlum að vinna eitthvað í Póllandi,“ segir Dagur í viðtali við Handball-World um mótið.

„Við höfðum það forskot að vera á heimavelli. Leikurinn gegn Slóveníu í Póllandi verður allt öðruvísi. Þess vegna megum við ekki gera of mikið úr þessum sigri. Svo var Slóvenía líka að hvíla menn.“

Þetta var líklega í síðasta sinn sem Supercup-mótið verður haldið í núverandi mynd, en áhuginn á því þykir ekki nógu mikill. Ríflega 4.500 manns mættu á leikinn í Kiel, 3.000 í Flensburg og tæplega 4.000 í Hamburg.

„Ég er jákvæður fyrir þessu samt sem áður og er þakklátur fólkinu sem kom á leikina. Mér er sama hvort nafni mótsins eða hvað verður gert, þessir leikir eru okkur nauðsynlegir,“ segir Dagur Sigurðsson.

Þýskaland er í mjög sterkum riðli á EM, en auk lærisveina dags og Slóveníu eru í riðlinum Spánverjar og Svíar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×