Menning

Slegist um stórvirki Páls Baldvins

Jakob Bjarnar skrifar
Kampakátir, höfundur og útgefandi en nú er leitað logandi ljósi: Prentsmiðju sem á pappír til að endurprenta stríðsárabók Páls.
Kampakátir, höfundur og útgefandi en nú er leitað logandi ljósi: Prentsmiðju sem á pappír til að endurprenta stríðsárabók Páls.

Svo bar það til tíðinda í lýðveldinu Íslandi síðla árs 2015 að slegist er um stórvirki Páls Baldvins Baldvinssonar: Stríðsárin 1938-1945.

Útgefandinn Egill Örn Jóhannsson er spenntur, segist aldrei hafa upplifað annað eins á sínum ferli en Páll Baldvin sjálfur segir að þessi velgengni bókarinnar komi sér ekki svo í opna skjöldu. Hann skynjaði mikinn áhuga á þessu tímabili þá er hann vann að ritun bókarinnar.

Útgefandinn aldrei upplifað annað eins

Ehhh, talaðu aðeins hægar...

„Ég get það ekki, ég er svo spenntur,“ segir Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins: „Geturðu ekki bara tekið þetta upp og skrifað þetta af bandi?“

Blaðamanni Vísis tókst með herkjum að hægja aðeins á framkvæmdastjóranum og hripa niður það sem bókaútgefandanum hafði um þetta að segja.

Egill Örn á skrifstofu sinni. Þaðan hringir hann nú um alla Evrópu og spyr menn í prentsmiðjum hvort þeir eigi pappír?visir/anton

„Það má í stuttu máli segja þetta: Ég hef aldrei kynnst öðru eins við útgáfu stórvirkis og nú er uppi á teningunum við útgáfu stríðsárabókar Páls Baldvins, en eftirspurnin hefur verið slík síðan bókin kom út fyrir rétt rúmri viku síðan að ljóst yrði að bókin myndi seljast upp jafnvel töluvert fyrir jóla.“

Pappírsskortur í allri Evrópu

Víst er að þetta sætir verulegum tíðindum. Þau hjá Forlaginu eru nú að skoða alla Evrópu með það fyrir augum að fá bókina endurprentaða:

„Í tæka tíð fyrir jól þannig að framboðið myndi anna eftirspurninni. Því miður virðist pappírsskortur vera vandamál um allt meginlandið og því orðið ljóst að afar hæpið er að takist að endurprenta bókina í desember.“

Egill Örn segir að þau hjá Forlaginu hafi látið prenta fimm þúsund eintök, úti í Lettlandi en ljóst virðist að það muni engan veginn duga til.

„Við erum þó enn með öll net úti til þess að sjá hvort einhverjir raunhæfir möguleikar verði til þess að prenta og ekki síst með tilliti til þess að við getum áfram boðið sama góða verð og er á bókinni í dag. Mér sýnist hún kosta á bilinu 12 til 15 þúsund krónur út úr búð. Sprenghlægilegt verð fyrir stórvirki sem telur yfir þúsund blaðsíður og vigtar yfir fjögur kíló, ríkulega myndskreytt.“

Lúxusvandamál en vandamál samt

Egill segir þetta vitaskuld ákaflega gaman fyrir útgefanda að eiga við vandamál af þessu tagi, þegar svo vel gengur og raun ber vitni. „En engu að síður getur það verið erfitt og taugatrekkjandi þegar lagerinn tæmist og ekki hægt að fylla á. Við munum funda strax eftir helgi um hvernig við munum reyna að bregðast við eftirspurninni og mér finnst ekki ólíklegt að við munum setja, í kjölfar þess að bókin seljist upp, á markað gjafabréf þannig að allir geti þó fengið bókina í jólagjöf, með einum hætti eða öðrum.“

Páll Baldvin var þrjú ár að vinna bókina, hann segir ekki þess að vænta að framhald verði á þessu verki þó sagan sú sé ekki að fullu skráð.visir/gva

Það sem fyrir liggur er þetta að óvenju mikið er farið út af bókinni miðað við að aðeins eru átta dagar liðnir frá útkomu „Og ljóst að slegist verður um eintökin síðustu dagana fyrir jól,“ segir Egill Örn.

Pollrólegur Páll

Höfundurinn Páll Baldvin var hins vegar pollrólegur þegar Vísir setti sig í samband við hann.

„Nei, þetta kemur mér ekki á óvart. Ég þurfti að tala við fjöldann allan við vinnslu bókarinnar og fann fyrir því hversu margir hafa áhuga á þessu tímabili. Og hef síðan reynt það eftir að bókinni var dreift að þá er fólk að víkja sér að mér á götu, sem ég þekki ekki neitt, og lýsa yfir áhuga sínum og ánægju með þetta verk. Bæði karlar og konur.“

Páll segir það ekki svo að þessu tímabili hafi ekki verið sinnt, viðamiklar rannsóknir á þessu sviði liggja fyrir og má í því sambandi nefna Þór Whitehead og Friðþór Eydal sem hafa gert ákveðnum þáttum í þessari sögu skil.

„Þó það sé ekki liðin nema rétt vika frá því verkið kom fyrir almenningssjónir hefur það líka gerst að það bætast við upplýsingar; fólk hringir vegna ljósmynda sem það hefur í sínum fórum, það hafa komið fram í fréttum upplýsingar um atvik á þessu árabili sem eru forvitnileg. Þannig að þessari sögu er ekkert lokið,“ segir Páll Baldvin: „Þetta sýnir að minningar og staðreyndir um þetta árabil eru lifandi í kviku þjóðarsálarinnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.