Engin jól án dönsku eplakökunnar Elín Albertsdóttir skrifar 28. nóvember 2015 09:00 Sif er gefa út sína fyrstu bók og hlakkar mikið til. MYND/ERNIR Góða eplakakan sem hefur fylgt fjölskyldu Sifjar í meira en fimmtíu ár. MYND/ERNIR Sif Sigfúsdóttir, markaðs- og vefstjóri Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að jólin komi með eplaköku sem hefur fylgt fjölskyldu hennar í meira en fimmtíu ár. Það er reyndar nóg að gera hjá Sif þessa dagana þar sem fyrsta bókin hennar, Leitin að Gagarín, kemur út fyrir þessi jól. Sif segist hafa fengið uppskriftina að eplakökunni frá móður sinni. „Hún minnir mig alltaf á Vestmannaeyjar, þaðan sem ég á ættir að rekja, og ég ólst upp við hana á jólum. Kakan er bara gerð einu sinni á ári og borðuð í eftirrétt á aðfangadag,“ segir hún. „Ég get ekki sagt að þetta sé heilsukaka, en þetta er gömul uppskrift og um að gera að leyfa sér að njóta hennar einu sinni á ári. Það þarf smávegis þolinmæði við að gera kökuna því það tekur tíma fyrir mylsnuna, smjörlíkið og sykurinn að aðlagast á pönnunni. Þetta þarf að brúnast en má ekki brenna. Það getur tekið allt upp í tvo tíma. Mér finnst þessi hefð mjög skemmtileg,“ segir hún. „Kanil- og eplabragðið gefur ákveðna jólastemningu. Ætli þetta sé ekki einhver nostalgía í mér,“ segir Sif og játar að vera mikið jólabarn. „Ég skreyti ekki mikið en vanda mig við það sem ég geri. Við erum með stórt jólatré og skreytum það með kóngabláu og gylltu. Ég er búin að safna skrauti á tréð í tuttugu ár og bæti alltaf við ef ég dett niður á eitthvað fallegt sem passar með öllu hinu.“ Sif er þátttakandi í jólabókaflóðinu í fyrsta skipti. Bókin nefnist Leitin að Gagarín og er fyrir 10 til 99 ára. „Hún er sambland af Völuspá, þjóðfræði, spennusögu og fantasíu. Bókin er búin að vera í smíðum í sex ár, en ég hef skrifað hana meðfram fullri vinnu.“ Sagan hefst á því að hin þrettán ára gamla Embla og bróðir hennar eru í sveit hjá afa sínum þegar þau lenda í illdeilum við glæpamenn. Þeir elta Emblu uppi og upp hefst spurningin um það hvaða leyndarmál leynist í mýrinni. Tvö hundruð og fimmtíu árum seinna eru Ísold og Hrólfur söguhetjurnar í breyttum heimi þar sem dularfull myrk öfl og verur utan úr geimnum eru komnar til jarðarinnar. Þá er spurningin hvort Véssunum tekst að endurheimta dularfullan grip sem tapaðist í mýrinni og hvort spádómar Völuspár muni rætast um heimsendi. Þetta er saga þar sem fjallað er um baráttu góðs og ills, von, vináttu, hugrekki og kærleika. „Það hefur lengi verið draumur minn að gefa út bók,“ segir Sif og segist hlakka mikið til að fá hana í hendur. Hún tók BA-próf í enskum bókmenntum árið 1994 og á síðustu árum hefur hún sótt námskeið í skapandi skrifum. „Ég hef skrifað svolítið fyrir skúffuna en nú er ég loks tilbúin með bókina og farin að hugsa þá næstu. Ég hef alltaf haft gaman af spennu- og ævintýrabókum,“ segir Sif og gefur hér uppskrift að gömlu og góðu jólaeplakökunni. Eplakaka Vestmannaeyja 3 pokar tvíbökur – Myllan, fæst í Bónus 200 g sykur 2-3 tsk. kanill 80 g smjörlíki 3 pokar smáepli 1 bolli sykur Tvíbökurnar eru hakkaðar í hrærivél eða settar í matvinnsluvél og hakkaðar þar til þær eru eins og sandur, ekki eins og hveiti. Lagt til hliðar í skál. Helmingur mylsnunnar settur á pönnu á mjög litlum hita. Helmingur kanils og helmingur af smjörlíkisbitanum látið út í ásamt helmingi sykurs. (Það er of mikið að setja allt á pönnuna í einu.) Hinn helmingurinn settur á pönnu og klárað. Með góðum tréspaða er þessu velt fram og til baka; mylsnu, sykri, kanil og smjörlíki, þar til mylsnan er orðin gullinbrún. Gætið þess að hafa mjög lágan hita, annars brennur mylsnan um leið (brúnið í 1-2 klst.) Sett til hliðar í skál. Eplin eru afhýdd og skorin í bita, sett í pott með vatni sem flýtur yfir eplin. Látið eplin linast, ekki kremja í mauk. Soðið þar til sleifin getur kramið eplin. Sykrað. Leggið pottinn til hliðar og kælið. Þá er að ná í stóra glerskál. Kakan er útbúin eins og lasagna; mylsna neðst í þunnu lagi, þá eplin sem veidd eru upp úr sykurvatninu, þá mylsna, epli, mylsna og enda á mylsnu. Sykurvatnið af eplunum er notað til að bleyta upp tvíbökumylsnuna. Kakan á að vera blaut. Sellófan sett vel yfir skálina og hún geymist vel í ísskáp í allt að viku. Það má minnka sykur til muna í uppskriftinni en af því að það eru jól og þetta er gömul uppskrift þá vil ég ekki breyta henni. Berið fram í desertskálum með rjóma. Jólafréttir Mest lesið Gyðingakökur Jól Gæludýrin veikjast af jólamat og skrauti Jól Fylltar kalkúnabringur Jólin Fögur er foldin Jól Jólasveinar léku á als oddi á Selfossi Jól Bakaðar á hverju finnsku heimili Jól Sviðsetning eftir ákveðnu handriti Jól Laxamús á jóladag Jól Svona gerirðu graflax Jól Börnin baka jólaskrautið Jól
Góða eplakakan sem hefur fylgt fjölskyldu Sifjar í meira en fimmtíu ár. MYND/ERNIR Sif Sigfúsdóttir, markaðs- og vefstjóri Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að jólin komi með eplaköku sem hefur fylgt fjölskyldu hennar í meira en fimmtíu ár. Það er reyndar nóg að gera hjá Sif þessa dagana þar sem fyrsta bókin hennar, Leitin að Gagarín, kemur út fyrir þessi jól. Sif segist hafa fengið uppskriftina að eplakökunni frá móður sinni. „Hún minnir mig alltaf á Vestmannaeyjar, þaðan sem ég á ættir að rekja, og ég ólst upp við hana á jólum. Kakan er bara gerð einu sinni á ári og borðuð í eftirrétt á aðfangadag,“ segir hún. „Ég get ekki sagt að þetta sé heilsukaka, en þetta er gömul uppskrift og um að gera að leyfa sér að njóta hennar einu sinni á ári. Það þarf smávegis þolinmæði við að gera kökuna því það tekur tíma fyrir mylsnuna, smjörlíkið og sykurinn að aðlagast á pönnunni. Þetta þarf að brúnast en má ekki brenna. Það getur tekið allt upp í tvo tíma. Mér finnst þessi hefð mjög skemmtileg,“ segir hún. „Kanil- og eplabragðið gefur ákveðna jólastemningu. Ætli þetta sé ekki einhver nostalgía í mér,“ segir Sif og játar að vera mikið jólabarn. „Ég skreyti ekki mikið en vanda mig við það sem ég geri. Við erum með stórt jólatré og skreytum það með kóngabláu og gylltu. Ég er búin að safna skrauti á tréð í tuttugu ár og bæti alltaf við ef ég dett niður á eitthvað fallegt sem passar með öllu hinu.“ Sif er þátttakandi í jólabókaflóðinu í fyrsta skipti. Bókin nefnist Leitin að Gagarín og er fyrir 10 til 99 ára. „Hún er sambland af Völuspá, þjóðfræði, spennusögu og fantasíu. Bókin er búin að vera í smíðum í sex ár, en ég hef skrifað hana meðfram fullri vinnu.“ Sagan hefst á því að hin þrettán ára gamla Embla og bróðir hennar eru í sveit hjá afa sínum þegar þau lenda í illdeilum við glæpamenn. Þeir elta Emblu uppi og upp hefst spurningin um það hvaða leyndarmál leynist í mýrinni. Tvö hundruð og fimmtíu árum seinna eru Ísold og Hrólfur söguhetjurnar í breyttum heimi þar sem dularfull myrk öfl og verur utan úr geimnum eru komnar til jarðarinnar. Þá er spurningin hvort Véssunum tekst að endurheimta dularfullan grip sem tapaðist í mýrinni og hvort spádómar Völuspár muni rætast um heimsendi. Þetta er saga þar sem fjallað er um baráttu góðs og ills, von, vináttu, hugrekki og kærleika. „Það hefur lengi verið draumur minn að gefa út bók,“ segir Sif og segist hlakka mikið til að fá hana í hendur. Hún tók BA-próf í enskum bókmenntum árið 1994 og á síðustu árum hefur hún sótt námskeið í skapandi skrifum. „Ég hef skrifað svolítið fyrir skúffuna en nú er ég loks tilbúin með bókina og farin að hugsa þá næstu. Ég hef alltaf haft gaman af spennu- og ævintýrabókum,“ segir Sif og gefur hér uppskrift að gömlu og góðu jólaeplakökunni. Eplakaka Vestmannaeyja 3 pokar tvíbökur – Myllan, fæst í Bónus 200 g sykur 2-3 tsk. kanill 80 g smjörlíki 3 pokar smáepli 1 bolli sykur Tvíbökurnar eru hakkaðar í hrærivél eða settar í matvinnsluvél og hakkaðar þar til þær eru eins og sandur, ekki eins og hveiti. Lagt til hliðar í skál. Helmingur mylsnunnar settur á pönnu á mjög litlum hita. Helmingur kanils og helmingur af smjörlíkisbitanum látið út í ásamt helmingi sykurs. (Það er of mikið að setja allt á pönnuna í einu.) Hinn helmingurinn settur á pönnu og klárað. Með góðum tréspaða er þessu velt fram og til baka; mylsnu, sykri, kanil og smjörlíki, þar til mylsnan er orðin gullinbrún. Gætið þess að hafa mjög lágan hita, annars brennur mylsnan um leið (brúnið í 1-2 klst.) Sett til hliðar í skál. Eplin eru afhýdd og skorin í bita, sett í pott með vatni sem flýtur yfir eplin. Látið eplin linast, ekki kremja í mauk. Soðið þar til sleifin getur kramið eplin. Sykrað. Leggið pottinn til hliðar og kælið. Þá er að ná í stóra glerskál. Kakan er útbúin eins og lasagna; mylsna neðst í þunnu lagi, þá eplin sem veidd eru upp úr sykurvatninu, þá mylsna, epli, mylsna og enda á mylsnu. Sykurvatnið af eplunum er notað til að bleyta upp tvíbökumylsnuna. Kakan á að vera blaut. Sellófan sett vel yfir skálina og hún geymist vel í ísskáp í allt að viku. Það má minnka sykur til muna í uppskriftinni en af því að það eru jól og þetta er gömul uppskrift þá vil ég ekki breyta henni. Berið fram í desertskálum með rjóma.
Jólafréttir Mest lesið Gyðingakökur Jól Gæludýrin veikjast af jólamat og skrauti Jól Fylltar kalkúnabringur Jólin Fögur er foldin Jól Jólasveinar léku á als oddi á Selfossi Jól Bakaðar á hverju finnsku heimili Jól Sviðsetning eftir ákveðnu handriti Jól Laxamús á jóladag Jól Svona gerirðu graflax Jól Börnin baka jólaskrautið Jól