Erlent

Sterk viðbrögð að þjóðarleiðtogar komi saman í París

Francois Holland og Barack Obama á blaðamannafundi í Washington.
Francois Holland og Barack Obama á blaðamannafundi í Washington. Vísir/EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að engin leið sé að líða Daish-samtökin, sem kalla sig Íslamskt ríki.

„Það verður að tortíma þeim. Og við verðum að gera það saman,“ sagði Obama á blaðamannafundi í Washington í gær með FranÇois Hollande Frakklandsforseta.

Hollande hefur undanfarið verið að safna liði meðal leiðtoga á Vesturlöndum og víðar gegn Daish-samtökunum sem segjast bera ábyrgð á fjöldamorðunum í París fyrr í mánuðinum.

„París verður alltaf París,“ sagði Obama samt. „Í næstu viku verðum við Hollande þar ásamt leiðtogum ríkja heims á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Það verður kraftmikil leið til þess að snupra hryðjuverkamennina, að heimurinn standi saman og sýni að við látum ekki fæla okkur frá því að búa börnum okkar betri framtíð.“

Á mánudag tók Hollande á móti David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í París. Á morgun kemur Angela Merkel til Parísar að hitta Hollande, en á fimmtudag heldur hann svo til Moskvu til fundar við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×